Aftur til verka eftir 10 mánaða hlé

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa nú tekið upp að nýju meirihlutasamstarf sitt í Reykjavík eftir að uppúr slitnaði fyrir rúmum þrjúhundruð dögum. Samstarf flokkanna að loknum síðustu borgarstjórnarkosningum var byggt á traustum málefnalegum grunni og í raun afar farsælt. Nú er vonandi lokið 10 mánaða tímabili í borgarstjórn Reykjavíkur sem var engum borgarfulltrúa, hvar í flokki sem hann stóð, til sóma.

Þegar þáverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, Björn Ingi Hrafnsson, ákvað að slíta meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn vegna REI-málsins, var myndaður meirihluti Samfylkingar, Vinstrigrænna, Framsóknar og Margrétar Sverrisdóttir, sem reyndar var varamaður í borgarstjórn. Sá meirihluti átti sér engar málefnalegar undirstöður, til hans var stofnað til að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Það er því holur hljómur í klifi Dags B. Eggertssonar um valdabrölt og klækjastjórnmál Sjálfstæðisflokksins.

Hundraðdagameirihlutinn þurfti að reiða sig á stuðning Ólafs F. Magnússonar sem átti jú sæti í borgarstjórn ólíkt Margréti Sverrisdóttur. Ekki minnist ég þess að neinn úr hópi Samfylkingar eða VG hafi farið nokkrum orðum um heilsufar eða persónu Ólafs á þessum tíma en þegar hann ákvað að starfa með Sjálfstæðisflokknum dundu á honum svo ógeðfelldar og meinfýsnar árásir forystumanna vinstriflokkanna að leitun er á öðru eins.

Til þess svo að bíta höfuðið af skömminni reyndu vinstrimenn í borginni að fá Ólaf til að víkja sæti fyrir Margréti Sverrisdóttur í gær, til þess eins að koma í veg fyrir meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem þá var í burðarliðnum. Um þetta hafa vitnað bæði Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, og Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður og fyrrverandi borgarfulltrúi VG, sem lýsti því beinlínis yfir í fréttum í gær að hann hefði verið gerður út af örkinni af hálfu minnihlutans til að fá Ólaf til að víkja fyrir Margréti. Dagur B. Eggertsson kastar því steinum úr glerhúsi þegar hann sakar aðra um klækjabrögð og valdapólitík.

Mestu skiptir nú að endurnýjaður meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hyggst taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Báðir flokkar hafa lært sína lexíu á því sem undan er gengið og geta nú gengið óhikað til verka við stjórn borgarinnar.


Forvalið vestanhafs í Deiglunni

Þessa vikuna beinir Deiglan sjónum sínum að vali á frambjóðendum demókrata og repúblikana fyrir forsetakosningar sem fram fara í Bandaríkjunum í haust. Hart er barist innan beggja flokka fyrir tilnefningunni og geta úrslitin forvalsins í fyrstu ríkjunum haft úrslitaáhrif.

 deiglan-usa-banner-feb2007


Hin hljóðláta ríkisvæðing

Löggjafinn tekur sér ýmislegt fyrir hendur og margt af því er bæði óþarft og gagnlaust en sumt hreinlega skaðlegt. Öðru máli gegnir um þingsályktunartillögu sem nú er komin fram um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Tímabært er að draga hina hljóðlátu ríkisvæðingu fram í dagsljósið.

Lesa...


Allt að tveggja ára fangelsi

Eina leiðin til að sporna við þessum veiðiþjófnaði er að beita viðurlagaákvæðum nýrra lax- og silungsveiðilaga 67/2006 fullum fetum.

Samkvæmt 50. gr. laganna varðar það sektum og fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar, ef maður veiðir í vatni annars manns án leyfis.

Þegar haft er í huga hversu hátt verð þarf að greiða fyrir veiðiréttinn er ekki óeðlilegt að sektir séu í hærri kantinum.


mbl.is Veiðiþjófnaður í laxveiðiám vaxandi vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá er Portsmouth fallið...

Það er auðvitað hrein og slysaleg tilviljun að þau lið Hermanns Hreiðarssonar falla undantekningalítið milli deilda.


mbl.is Hermann gengur til liðs við Portsmouth
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjuleg stefnuyfirlýsing Þingvallastjórnar

Þá er þetta allt saman klárt; frjálslynd umbótastjórn, Þingvallastjórnin, tekur við landsstjórninni á morgun. Ég hygg að sjálfstæðismenn geti vel við stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar unað, þótt vissulega sé þar að finna einhverjar málamiðlanir eins og gefur að skilja.

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna sendi í dag frá sér eftirfarandi ályktun:

Samband ungra sjálfstæðismanna lýsir yfir ánægju sinni með stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sérstaklega ber að fagna áherslum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum þar sem skapa á svigrúm fyrir einkarekstur, taka upp blandaða fjármögnun og láta fjármagn fylgja sjúklingi. Þá er fagnaðarefni að landbúnaðarkefið verði endurskoðað með það fyrir augum að auka frelsi til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Ungir sjálfstæðismenn taka heilshugar undir þau áform ríkisstjórnarinnar að halda áfram að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Mikilvæg er einnig sú yfirlýsing í stjórnarsáttmálanum að ýtrasta aðhalds verði áfram gætt í rekstri hins opinbera og að hlutur opinberrar starfsemi af þjóðarframleiðslunni vaxi ekki umfram það sem nú er.

Samband ungra sjálfstæðismanna óskar nýjum ráðherra flokksins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, velfarnaðar í starfi heilbrigðisráðherra. Guðlaugur Þór var formaður SUS frá 1993 til 1997 og binda ungir sjálfstæðismenn miklar vonir við aðkomu hans að þessum málaflokki. Mjög aðkallandi er að ráðast í grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu, ekki síst í þeim tilgangi að þeir miklu fjármunir sem varið er til heilbrigðismála nýtist sem best.

Glæsilegur sigur Sjálfstæðisflokksins í nýafstöðnum alþingiskosningum, þar sem flokkurinn jók fylgi sitt verulega og bætti við sig þremur þingmönnum, er nú innsiglaður með áframhaldandi forystu flokksins í ríkisstjórn undir forsæti Geirs H. Haarde. Samband ungra sjálfstæðismanna horfir björtum augum til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna. Ekki var grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi við Framsóknarflokk, þótt það samstarf undanfarin tólf ár hafi reynst þjóðinni afar farsælt. Ástæða er til að ætla að sú frjálslynda umbótastjórn sem nú tekur við sé vel í stakk búin til að takast á við nýjar áskoranir á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið á undanförnum árum.


Glæsilegur sigur Sjálfstæðisflokksins

Sigur Sjálfstæðisflokksins í nýafstöðnum kosningum er glæsilegur. Það er einsdæmi að forystuflokkur í ríkisstjórn bæti verulega við þingstyrk sinn eftir sextán ára setu í ríkisstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn er á ný orðinn langstærsti flokkurinn á Íslandi og allt "tveggja turna" tal er nú úr sögunni. Flokkurinn fékk 25 þingmenn kjörna á Alþingi, aðeins einum minna en í stórsigrinum árið 1999, og er nú í fyrsta sinn stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum landsins.

Nýr þingflokkur Sjálfstæðisflokksins undirstrikar bæði sterka liðsheild og þá miklu endurnýjun sem orðið hefur en af 25 þingmönnum er tíu nýir þingmenn. Þá hefur hlutfall kvenna í þingflokknum aldrei verið hærra, átta konur sitja nú í þingflokknum eða rétt tæpur þriðjungur.

Sigur Sjálfstæðisflokksins í kosningunum þýðir að ríkisstjórnin hélt velli. Stjórnarandstaðan lagði allt undir til að fella stjórnina og fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins er auðvitað skýr skilaboð frá kjósendum um að þeir vilji hafa Sjálfstæðisflokkinn áfram í stjórnarforystu.

Hittir naglann á höfuðið

Samfylkingarkonan Anna K. Kristjánsdóttir hittir naglann á höfuðið í bloggfærslu sinni um úrslit kosninganna þegar hún segir:

Samfylkingin verður að hætta að ljúga að sjálfri sér og reyna að læra af tapinu.


Vinstristjórnin þegar búin að ákveða skattahækkanir

Vinstriflokkarnir virðast þegar hafa náð samstöðu um fyrstu skattahækkunina, ef þeim tekst að komast til valda í kosningum á morgun.

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins vekur athygli á þessu í leiðara dagsins.


Eurovisiongleði í kvöld

Það verður mikil stemmning í kvöld þegar sýnt verður frá beint frá Aþenu. Í kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins við Kringluna mun Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi og Euróvision-fræðingur, lýsa keppninni.

 

eiki

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband