Ánægjuleg stefnuyfirlýsing Þingvallastjórnar

Þá er þetta allt saman klárt; frjálslynd umbótastjórn, Þingvallastjórnin, tekur við landsstjórninni á morgun. Ég hygg að sjálfstæðismenn geti vel við stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar unað, þótt vissulega sé þar að finna einhverjar málamiðlanir eins og gefur að skilja.

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna sendi í dag frá sér eftirfarandi ályktun:

Samband ungra sjálfstæðismanna lýsir yfir ánægju sinni með stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sérstaklega ber að fagna áherslum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum þar sem skapa á svigrúm fyrir einkarekstur, taka upp blandaða fjármögnun og láta fjármagn fylgja sjúklingi. Þá er fagnaðarefni að landbúnaðarkefið verði endurskoðað með það fyrir augum að auka frelsi til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Ungir sjálfstæðismenn taka heilshugar undir þau áform ríkisstjórnarinnar að halda áfram að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Mikilvæg er einnig sú yfirlýsing í stjórnarsáttmálanum að ýtrasta aðhalds verði áfram gætt í rekstri hins opinbera og að hlutur opinberrar starfsemi af þjóðarframleiðslunni vaxi ekki umfram það sem nú er.

Samband ungra sjálfstæðismanna óskar nýjum ráðherra flokksins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, velfarnaðar í starfi heilbrigðisráðherra. Guðlaugur Þór var formaður SUS frá 1993 til 1997 og binda ungir sjálfstæðismenn miklar vonir við aðkomu hans að þessum málaflokki. Mjög aðkallandi er að ráðast í grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu, ekki síst í þeim tilgangi að þeir miklu fjármunir sem varið er til heilbrigðismála nýtist sem best.

Glæsilegur sigur Sjálfstæðisflokksins í nýafstöðnum alþingiskosningum, þar sem flokkurinn jók fylgi sitt verulega og bætti við sig þremur þingmönnum, er nú innsiglaður með áframhaldandi forystu flokksins í ríkisstjórn undir forsæti Geirs H. Haarde. Samband ungra sjálfstæðismanna horfir björtum augum til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna. Ekki var grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi við Framsóknarflokk, þótt það samstarf undanfarin tólf ár hafi reynst þjóðinni afar farsælt. Ástæða er til að ætla að sú frjálslynda umbótastjórn sem nú tekur við sé vel í stakk búin til að takast á við nýjar áskoranir á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið á undanförnum árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband