Aftur til verka eftir 10 mánaða hlé

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa nú tekið upp að nýju meirihlutasamstarf sitt í Reykjavík eftir að uppúr slitnaði fyrir rúmum þrjúhundruð dögum. Samstarf flokkanna að loknum síðustu borgarstjórnarkosningum var byggt á traustum málefnalegum grunni og í raun afar farsælt. Nú er vonandi lokið 10 mánaða tímabili í borgarstjórn Reykjavíkur sem var engum borgarfulltrúa, hvar í flokki sem hann stóð, til sóma.

Þegar þáverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, Björn Ingi Hrafnsson, ákvað að slíta meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn vegna REI-málsins, var myndaður meirihluti Samfylkingar, Vinstrigrænna, Framsóknar og Margrétar Sverrisdóttir, sem reyndar var varamaður í borgarstjórn. Sá meirihluti átti sér engar málefnalegar undirstöður, til hans var stofnað til að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Það er því holur hljómur í klifi Dags B. Eggertssonar um valdabrölt og klækjastjórnmál Sjálfstæðisflokksins.

Hundraðdagameirihlutinn þurfti að reiða sig á stuðning Ólafs F. Magnússonar sem átti jú sæti í borgarstjórn ólíkt Margréti Sverrisdóttur. Ekki minnist ég þess að neinn úr hópi Samfylkingar eða VG hafi farið nokkrum orðum um heilsufar eða persónu Ólafs á þessum tíma en þegar hann ákvað að starfa með Sjálfstæðisflokknum dundu á honum svo ógeðfelldar og meinfýsnar árásir forystumanna vinstriflokkanna að leitun er á öðru eins.

Til þess svo að bíta höfuðið af skömminni reyndu vinstrimenn í borginni að fá Ólaf til að víkja sæti fyrir Margréti Sverrisdóttur í gær, til þess eins að koma í veg fyrir meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem þá var í burðarliðnum. Um þetta hafa vitnað bæði Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, og Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður og fyrrverandi borgarfulltrúi VG, sem lýsti því beinlínis yfir í fréttum í gær að hann hefði verið gerður út af örkinni af hálfu minnihlutans til að fá Ólaf til að víkja fyrir Margréti. Dagur B. Eggertsson kastar því steinum úr glerhúsi þegar hann sakar aðra um klækjabrögð og valdapólitík.

Mestu skiptir nú að endurnýjaður meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hyggst taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Báðir flokkar hafa lært sína lexíu á því sem undan er gengið og geta nú gengið óhikað til verka við stjórn borgarinnar.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður K Guðmundsdóttir

Margir góðir og gegnir sjálfstæðismenn, með pólitískt nef hafa viðrað þá skoðun sína að taktískara hefði verið að vera í minnilhluta út þetta kjörtímabil, sem verður án efa erfitt tímabil í rekstri borgarinnar. Auk þess er það nánast útilokað að tjarnakvartettinn endurborinn myndi verða farsæll og samstíga í ljósi þeirrar stöðu sem F listinn er í, með ósamstíga borgarfulltrúa og illinda milli 1. og 2. manns. Sumir vilja meina að hin öfluga og frábæra kona sem nú er í forsvari fyrir D hafi verið heldur of óþolinmóð. Það væri gaman að heyra góðar röksemdir gegn þessum sjónarmiðum.

Ragnheiður K Guðmundsdóttir, 15.8.2008 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband