Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Að tapa bæði kosningum og ærunni

Kosningabaráttu Samfylkingarinnar eru gerð ágæt skil í leiðara Deiglunnar í dag. Þar segir meðal annars:

Fram hefur komið í fréttum að tíu ára stúlka hafi ekki fengið innlögn þegar leitað var á sjúkrahús vegna sjálfsvígshugleiðinga hennar. Þetta hafa verið hryggileg mistök í læknisþjónustu, en væntanlega vita flestir að slík mistök eiga nákvæmlega ekkert skylt við flokkspólitískar deilur. Samfylkingarmaðurinn Össur Skarphéðinsson virðist þó ekki telja það fyrir neðan sína virðingu að beita slíku máli fyrir síg í pólitísku hnútukasti, eins og hann gerði í Silfri Egils í gær. Slíkur málflutningur er auðvitað ekkert annað en viðbjóðslegur og vonandi dettur engum í hug að dæma Össur eða Samfylkinguna eingöngu af þessu einstaka smekkleysi.

Á þessum síðustu vikum fyrir kosningar hefur Samfylkingin fallið í þann pytt að herja á kjósendur með óvönduðum málflutningi, dylgjum og útúrsnúningum. Hún dylgjar um mannvonsku stjórnarflokkana, lofar aðgerðum sem þegar er búið að ákveða – og beitir fyrir sig mistökum í læknisþjónustu til þess að leggja snöru fyrir andstæðinga sína í baráttunni. Mönnum kann stundum að hlaupa kapp í kinn í slagnum og segja ýmislegt ógætilegt. En þótt Samfylkingin tapi kosningunum er ekki þar með sagt að fulltrúar hennar þurfi líka að tapa sómakenndinni.


Stóra kosningamálið

Af hverju eru menn að segja að kosningarnar snúist ekki um neitt? Stóra kosningamál stjórnarandstöðunnar nú þegar 12 dagar eru kosninga eru tannskemmdir. Hvað segir það okkur um ástand mála í íslensku samfélagi?

Stjórnarandstöðunni verður nú tíðrætt um tannlækningar og tannvernd barna sem þau segja að fari hrakandi og kenna ríkisstjórninni um. Meðal annars er talað um að ríkisstjórnin hafi dregið úr framlögum sínum og jafnvel að tannlækningar hafi verið einkavæddar. Þetta er villandi umræða. Þó tannlækningar séu vissulega ekki reknar af hinu opinbera, endurgreiðir Tryggingarstofnun ríkisins 75% af tannlæknakostnaði barna undir 17 ára aldri og kemur þannig að verulegu leyti til móts við þennan kostnað.

Meðal þess sem hefur verið í umræðunni er skýrsla frá MunnÍs frá því snemma á árinu þar sem fram kemur að tannheisla barna sé verri árið 2005 en árið 1996 og tannskemmdir algengari. Þetta eru hins vegar ekki sambærilegar niðurstöður, þar sem ólíkum aðferðum var beitt við rannsóknir. Árið 1996 var beint sjónrænni skoðun til að meta tannskemmdir en árið 2005 var mun nákvæmari aðferðum beitt auk þess sem röntgenmyndir gera greiningu á skemmdum betri. Í skýrslu MunnÍs er tekið fram að ef sjónrænu aðferðinni hefði aftur verið beitt árið 2005 hefðu breytingarnar á tannheilsu barna verið litlar. Það sem mestu máli skiptir er að rannsóknaraðferðirnar eru ólíkar.

Þetta er nú svona það helsta um mál málanna í þingkosningum á Íslandi árið 2007.


Frambjóðandi eða faglegur sviðsstjóri?

Á Deiglunni er að finna athyglisverða frétt um sviðsstjóra á geðdeild LSH sem jafnframt skipar 13. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæm norður:

Fréttin er svohljóðandi:

Í umræðum um ástand mála hjá BUGL á síðustu dögum, rétt fyrir kosningar, hefur sviðstjórinn Eydís Sveinbjarnadóttir haft sig mjög í frammi en lítið látið þess getið að hún sé frambjóðandi Samfylkingar. Hún kom meðal annars fram í frétt á Stöð 2 fyrir skemmstu þar sem hún beinlínis lýsti yfir neyðarástandi. Fréttamenn Stöðvar 2 létu þess ógetið að sviðsstjórinn væri frambjóðandi í alþingiskosningum, en hún skipar 13. sæti á lista Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Það sem vekur enn frekar spurningar um áreiðanleika Eydísar er að í janúar skrifaði hún grein í Morgunblaðið þar sem hún segir meðal annars að fjárveitingar til BUGL hafi verið auknar. Eydis segir m.a. í greininni:

"Fjárveitingar til BUGL hafa aukist á undanförnum árum sem var nauðsynlegt m.a. vegna aukinnar þjónustueftirspurnar. Alþingi ákvarðar LSH fjárveitingar og hin ýmsu svið LSH reyna að aðlaga starfsemi sína þeim fjármunum sem til skipta eru hverju sinni."

Enn fremur fjallar Eydís um það í greininni að nýtt húsnæði verði tekið í notkun á næsta ári. Nú þegar kosningar nálgast, og félagar Eydísar í Samfylkingunni þurfa að mála raunveruleikann sem dekkstum litum, virðist sem veður hafi skipast mjög í kollinum á sviðsstjóranum. Í stað þess að sjá vonarglætu í þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til, heldur Eydís því fram að um neyðarástand sé að ræða.

Það hlýtur að vekja spurningur að opinber starfsmaður skuli með þessum hætti nota aðstöðu sína til þess að gera stöðu stofnunar sinnar að pólitísku bitbeini - sérstaklega þegar hinn opinberi starfsmaður er sjálfur þátttakandi í þeirri flokkspólitík.


Vonbrigði Egils

Egill Helgason lýsti því yfir í þætti sínum í dag að Sjálfstæðisflokkurinn ræki hundleiðinlega kosningabaráttu.

Sjálfstæðismenn ættu eiginlega skammast sín fyrir að valda Agli slíkum vonbrigðum. Kosningabaráttan á auðvitað að vera skemmtiefni fyrir stjórnmálaskýrendur - það blasir við.


Aðgát skal höfð

Ég er sammála Guðmundi Magnússyni í þessu Jónínu-máli. Nú sem oftar er Guðmundur rödd skynseminnar:

Það hefur enn ekkert komið fram sem sýnir fram á að Jónína Bjartmarz hafi beitt áhrifum sínum sem þingmaður og ráðherra til að tryggja væntanlegri tengdadóttur sinni íslenskan ríkisborgararétt. Ef fjölmiðlar hefðu undir höndum skrifleg gögn eða vitnisburð einhverra sem sýndi fram á hið gagnstæða væri málið allt hið alvarlegasta. Eini vitnisburðurinn sem fram hefur komið, þ.e. ummæli þingmanna í allsherjarnefnd Alþingis, er Jónínu í hag.

Auðvitað eiga fjölmiðlar að líta á þessi mál gagnrýnum augum en þegar ekkert bendir til þess að Jónína hafi beitt áhrifum sínum, þá verða menn að fara varlega í sínum fréttaflutningi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband