Tilvist Framsóknarflokksins í hættu

Ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birtist í dag er tilvist Framsóknarflokksins í alvarlegri hættu. Flokkurinn mælist með 3,9% fylgi og ég man ekki eftir að hafa séð slíkar fylgistölur áður hjá Framsókn.

Niðursveiflan hjá Framsókn skilar sér til vinstri flokkanna tveggja sem samkvæmt könnuninni gætu myndað ríkisstjórn með 33 þingmenn samtals á bak við sig. Það er auðvitað einnig mikil tíðindi.

Svo virðist sem mikið flökt sé á fylgi flokka nú um stundir og er fylgi Samfylkingarinnar þannig að sveiflast úr 18% upp í 28% milli kannana sem framkvæmdar eru með viku millibili. Væntanlega hefur umrót í framboðsmálum þarna einhver áhrif, og einnig er á það að líta að í könnunum Blaðsins og Fréttablaðsins er svarhlutfallið mjög lágt. Vissulega ber að varast að lesa of mikið út úr slíkum könnunum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur samkvæmt könnun Fréttablaðsins tæplega 37% fylgi sem er svipað og hann hefur verið með í undanförnum Gallup könnunum en mun minna en nýleg könnun Blaðsins benti til. Ætla verður að kannanir Gallup og Fréttablaðsins gefi raunhæfari mynd af fylgi Sjálfstæðisflokksins.

En hvað framsóknarmenn varðar, þá hljóta vísbendingar þær sem lesa má út úr svona fylgiskönnunum að reyna mjög á þolrifin. Framsóknarflokkurinn hefur hingað til staðist að mestu þær freistingar sem smáflokkar standa oft frammi fyrir - að elta uppi einhver popúlísk mál - en nú fer að reyna verulega á flokkinn. Líklegt er þó að botninum sé náð og úr þessu muni Framsókn smám saman vinna til baka fylgi sitt, væntanlega frá vinstri flokkunum tveimur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband