Ímyndarstríð Íbúðalánasjóðs

"Ætti að leggja Íbúðalánasjóð niður og nota þá fjármuni sem sparast að bæta kjör á niðurgreiddum íbúðalánum ríkisins sem veitt yrðu í gegnum almenna bankakerfið?"

Íbúðalánasjóður er alveg stórmerkileg stofnun. Sjóðurinn er í raun afgreiðslustofnun fyrir niðurgreidd, ríkistryggð lán, en eins og svo margar ríkisstofnanir, þá hefur hún öðlast sjálfstæða tilveru.

Reyndar hefur það gerst með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, því fáar - ef nokkur - ríkisstofnun virðist verja jafn miklum fjármunum og mannafla og Íbúðalánasjóður í að réttlæta eigin tilveru.  Jafnvel sjálft Ríkisútvarpið, þar sem starfsmenn hafa löngum talið sig handhafa æðri sannleika, kemst ekki með tærnar þar sem Íbúðalánasjóður hefur hælana.

Almannatengsladeild sjóðsins hefur til að mynda staðið fyrir fjölmörgum "viðhorfskönnunum" meðal almennings þar sem settar eru fram leiðandi og oft á tíðum villandi spurningar í því augnamiði að réttlæta tilveru sjóðsins.

Niðurstöðunum er síðan hampað í fjölmiðlum sem oftar en ekki gleypa við því gagnrýnislaust að sjóðurinn sjálfur stendur að baki könnunum. Myndu fjölmiðlar einhvern tímann gleypa við könnun á vegum Framsóknarflokksins, svo dæmi sé tekið af algjöru handahófi, þar sem flokkurinn hefði látið kannað "viðhorf almennings" til einhverja stefnumála sinna með spurningum sem væru hannaðar af ímyndarsérfræðingum flokksins? Ég hugsa ekki.

Hvers vegna greina fjölmiðlar þá gagnrýnislaust frá niðurstöðum kannana sem Íbúðalánasjóður lætur gera, þar sem fólk er spurt spurninga á borð við þá, hvort það vilji meiri niðurgreidd, ríkistryggð lán? Hver myndi slá hendinni á móti niðurgreiddu, ríkistryggðu láni? Auðvitað er yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem svara reiðubúinn til að taka slíkum gylliboðum, algerlega burtséð frá því hvort einhver þörf er á því fyrir viðkomandi.

Þessar niðurstöður eru síðan notaðar til að réttlæta tilveru sjóðsins.

Mætti ég stinga upp á spurningu í næsta spurningavagn Íbúðalánasjóðs:

"Ætti að leggja Íbúðalánasjóð niður og nota þá fjármuni sem sparast til að bæta kjör á niðurgreiddum íbúðalánum ríkisins sem veitt yrðu í gegnum almenna bankakerfið?"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband