Ísland stenst prófið um jöfnuð

Nú þegar stóra kosningamál íslenskra jafnaðarmanna er gufað upp, þá eru spunameistararnir byrjaðir að draga í land. Það væri þó heiðarlegra hjá þeim að gera það af meiri myndarskap en Þorvaldur Gylfason gerir í grein sinni í Fréttablaðinu í dag.

Alþjóðlegar rannsóknir hafa nú fært okkur heim sanninn um að óvíða á byggðu bóli er jöfnuður meiri en hér á Íslandi. Eftir alla fyrirhöfnina og allt "plöggið" er kosningabomba Stefáns Ólafssonar og Þorvaldar Gylfasonar, umboðsmanna jafnaðarstefnunnar, að engu orðin.

Deiglan gerir þessu ágætlega skil í dag í pistli eftir Árna Helgason, þar sem segir m.a.

"Ísland stenst samkvæmt þessari rannsókn prófið um jöfnuð í þjóðfélaginu. Það hafa vissulega orðið breytingar í þá veru að hér hafa ýmsir orðið ríkari og hafa hærri tekjur en áður. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir sem minnst hafa milli handanna hafa einnig bætt sína stöðu verulega."

Þetta er auðvitað það sem mestu skiptir. Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað ekki að kappsfullir fylgismenn jafnaðarstefnunnar hafi hallað réttu máli og málað skrattann á vegginn á grundvelli rangra útreikninga.

Aðalatriðið er að tekjulægstu hópar samfélagsins hafa það hvergi betra en á Íslandi dag, ef frá er hugsanlega talið eitt Evrópuríki. Þessu ættu íslenskir jafnaðarmenn að fagna en ekki að bölsótast út þessa ánægjulegu staðreynd og reyna að gera lítið úr henni.

Það verður forvitnilegt að sjá hvaða mál verður næst gert að stóra kosningamáli íslenskra jafnaðarmanna þegar þetta mikla hitamál hefur nú kólnað mjög snögglega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband