Ekki stimpilstofnun fyrir hagsmunasamtök

Forgangsröðun stjórnarandstöðunnar, einkum þingmanna Samfylkingarinnar, er á stundum hreint kostuleg. Skipun menntamálaráðherra í fagráð Norræna blaðamannaskólans var gerð að umræðuefni á Alþingi í dag að frumkvæði Marðar Árnasonar. Tilefnið var að ráðherra fór ekki að tillögu Blaðamannafélags Íslands um skipan í ráðið.

Í umræðunum krafðist Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, þess að ráðherra bæðist afsökunar á mistökunum og tilkynnti að framvegis yrði unnið samkvæmt hefðinni, en þvi er haldið fram að jafnan hafi verið farið eftir tillögum BÍ varðandi skipun í þetta ráð. Krafa Björgvins gengur þannig út að ráðherra afsali sér í raun skipunarvaldinu með formlegum og bindandi hætti til hagsmunaaðila út í bæ.

Ráðherra ber pólitíska ábyrgð á skipunum sínum og þá ábyrgð getur hann ekki lagt á herðar einhverra umsagnaraðila. Eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti réttilega á í dag, þá eru ráðuneytin ekki sjálfvirkir stimpilpúðar fyrir hagsmunasamtök.

Það er hins vegar athyglisvert að þingmönnum Samfylkingarinnar virtist ekki mjög umhugað um halda sig við venjur þegar forseti Íslands gekk á skjön við ríka stjórnskipunarhefð og tók sér neitunarvald í fjölmiðlamálinu svokallaða.

Ólíkt forsetanum er menntamálaráðherra að sinna því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum; að bera ábyrgð á stjórnarathöfnum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband