Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þess vegna er fulltrúalýðræði...

Það var ágætur fréttapunktur á baksíðu Markaðarins liðinni viku, þar sem sagði að stór hluti ungmenna, miðað við rannsókn sem gerð hafði verið, teldi að milljarður væri 100 milljónir. Þetta styrkir í það minnsta ekki málstað þeirra sem vilja hverfa frá fulltrúalýðræðinu.

Annars er það helst að ungir framsóknarmenn í Skagafirði hafna áframhaldandi samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn að loknum kosningum í vor. Þetta er auðvitað reiðarslag.


Tilvist Framsóknarflokksins í hættu

Ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birtist í dag er tilvist Framsóknarflokksins í alvarlegri hættu. Flokkurinn mælist með 3,9% fylgi og ég man ekki eftir að hafa séð slíkar fylgistölur áður hjá Framsókn.

Niðursveiflan hjá Framsókn skilar sér til vinstri flokkanna tveggja sem samkvæmt könnuninni gætu myndað ríkisstjórn með 33 þingmenn samtals á bak við sig. Það er auðvitað einnig mikil tíðindi.

Svo virðist sem mikið flökt sé á fylgi flokka nú um stundir og er fylgi Samfylkingarinnar þannig að sveiflast úr 18% upp í 28% milli kannana sem framkvæmdar eru með viku millibili. Væntanlega hefur umrót í framboðsmálum þarna einhver áhrif, og einnig er á það að líta að í könnunum Blaðsins og Fréttablaðsins er svarhlutfallið mjög lágt. Vissulega ber að varast að lesa of mikið út úr slíkum könnunum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur samkvæmt könnun Fréttablaðsins tæplega 37% fylgi sem er svipað og hann hefur verið með í undanförnum Gallup könnunum en mun minna en nýleg könnun Blaðsins benti til. Ætla verður að kannanir Gallup og Fréttablaðsins gefi raunhæfari mynd af fylgi Sjálfstæðisflokksins.

En hvað framsóknarmenn varðar, þá hljóta vísbendingar þær sem lesa má út úr svona fylgiskönnunum að reyna mjög á þolrifin. Framsóknarflokkurinn hefur hingað til staðist að mestu þær freistingar sem smáflokkar standa oft frammi fyrir - að elta uppi einhver popúlísk mál - en nú fer að reyna verulega á flokkinn. Líklegt er þó að botninum sé náð og úr þessu muni Framsókn smám saman vinna til baka fylgi sitt, væntanlega frá vinstri flokkunum tveimur.


Gegn betri vitund

Vinur minn og kunningi, Einar Mar Þórðarson, gerir orð forsætisráðherra um launamun kynjanna í ræðu á Viðskiptaþingi að umtalsefni á blogginu sínu. Einar, sem er kennari í félagsvísindadeild Háskóla Íslands, tengir þá umræðu við hugmyndir um leiðir til að einfalda lagaumhverfi fyrirtækja og gera skattaumhverfi þeirra hér á landi samkeppnishæft.

Segir Einar meðal annars af þessu tilefni:

„Kynbundin launamunur er svartur blettur á íslensku viðskiptalífi og samfélaginu öllu og því ættu raunhæfar lausnir til að útrýma honum að vera forsætisráðherra ofar í huga en hvort fyrirtæki græði milljón til eða frá.“

Einar Mar er glöggur maður og átta sig auðvitað á því að lægri skattar á fyrirtæki og einfaldari löggjöf er ekki spurning um hvort fyrirtæki græði milljón til eða frá. Fyrst og fremst er þetta spurning um hvort auðsköpun þessara fyrirtækja fari fram hér á landi eða annars staðar. Grundvöllur velferðar allra samfélagshópa á Íslandi er undir því kominn að hér sé til staðar nægilegt fjármagn. Og fyrir þá sem vilja að ríkisvaldið hafi hlutverki að gegna í þeim efnum er rétt að benda á orð forsætisráðherra úr áðurnefndri ræðu:

„Það er sem sumir fáist ekki til að skilja að 10% af miklu er mun meira en 18% af engu.“

Það er Einari Mar ekki samboðið að setja hlutina fram með þeim hætti sem hann gerir. Hann ætti fremur að hugsa um að byggja upp orðspor sitt sem fræðimanns en að taka þátt í einhverjum spunadansi. Hvatnig ráðamanna til stjórnenda fyrirtækja um að greiða sömu laun fyrir sambærilega vinnu og huga að jafnrétti í þeim efnum er síður en svo í mótsögn við að haga regluverki hér á landi með þeim hætti að hér verði áframhaldandi uppgangur og auðsköpun til hagsbóta fyrir allra þjóðfélagshópa.

Of margir íslenskir fræðimenn á sviði félagsvísinda eru svo að segja ómarktækir  vegna stjórnmálaskoðanna sinna og því hvernig þær lita framgöngu þeirra. Það væri synd að sjá Einar Mar bætast í þann hóp.


Eins og kettir í kringum heitan graut

Er það ekki dæmigert fyrir stjórnarandstöðuna á Alþingi að ásaka þingmanninn Sigurð Kára Kristjánsson um að setja á svið leikrit þegar hann spyr forsætisráðherra, ráðherra hagstofu, um niðurstöður um tekjudreifing í nýjustu Hagtíðindum?

Þess fyrirspurn á fyllilega rétt á sér, enda hljóta gögn frá Hagstofunni að varpa mikilvægu ljósi á þetta mikla deilumál, sem reyndar er að mestu spunnið í spunastokkum stjórnarandstöðunnar. En þá bregst stjórnarandstaðan, sem ítrekað hefur vanvirt Alþingi með fráleitu málþófi og margs konar upphlaupum, við með því að drepa málinu á dreif.

Og fjölmiðlar bíta vitaskuld á agnið. Eru menn hissa á Morgunblaðið sé að missa fótfestuna þegar þingfréttaritarar blaðsins eru ekki færir um að fjalla um efnishlið mál, heldur hlaupa eftir spunastælum stjórnarandstöðunnar í sífellu?


Dómarar á sakamannabekk

Margir hafa orðið til tjá sig um forsíðu Morgunblaðsins sl. föstudag, þar sem fimm hæstaréttardómar voru sýndir sem sakamenn eftir að hafa kveðið upp dóm yfir kynferðisafbrotamanni, dóm sem Morgunblaðinu þótti augljóslega of vægur.

Svona forsíðu hefur maður ekki séð á Morgunblaðinu, nema þegar stórslys verða og hinum látnu er sýnd sú virðing og aðstandendum þeirra sú hluttekning, að leggja forsíðuna undir myndir af hinum látnu. 

Ari Karlsson, Deiglupenni, segir það sem segja þarf um þetta mál í Deiglupistli sínum sem birtist í gær


Af hverju skriftarkennsla?

Börn á grunnskólaaldri eyða ómældum tíma í að læra að draga til stafs. Ekki er langt síðan góð rithönd þótti mikill mannkostur og ég minnist armæðu ömmu minnar yfir óbreytanlegri B-einkunn minni í skrift.  Nú sit ég sjálfur yfir skriftaræfingum barnanna minna og spyr mig sömu spurninga og voru í huga mínum þá, af hverju er verið að eyða tíma í þetta?

Sú kynnslóð sem nú er á grunnskólaaldri mun væntanlega aldrei skrifa neitt nema nafnið sitt. Dyggðin að draga rétt og vel til stafs verður í besta falli skemmtileg handverksiðn sem notuð er á tyllidögum. Skriftin verður þannig nokkurs konar handvefnaður.

Í þessu ljósi væri miklu nær að byrja strax að kenna þessum krökkum fingrasetningu á lyklaborði. Öllum þeim hliðarmarkmiðum sem núverandi skriftarkennslu er ætlað að ná, eins og að örva sagnagáfuna, væri hægt að ná með því að kenna krökkunum að slá á lyklaborðið - það er jú það tæki sem þau munu nota til tjáningar og samskipta. 


Heggur sá er hlífa skyldi

Var það ekki Jón Baldvin Hannibalsson sem kvartaði undan því um árið að hafa verið stunginn rýtingi í bakið í pólitískum skilningi? Hvað má þá segja um atlögu Jóns að eftirmanni hans á formannsstóli íslenskra jafnaðarmanna?

Þótt því verði vart á móti mælt að Jón hafi nokkuð til síns máls, þá er framkoma hans gagnvart formanni Samfylkingarinnar afar ódrengileg, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eiginlega er maður gáttaður að horfa upp á fyrrverandi leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna, sem formaður Samfylkingarinnar hefur lagt traust sitt á, koma aftan að samherja sínum með þessum hætti.

Staðan á vinstri væng stjórnmálanna er að verða kunnugleg. Þar kólnar kaffibandalagið hratt og klofna flokkar sem ekki hafa enn verið stofnaðir. Hvítt afl hefur yfirtekið Frjálslynda flokkinn og Margrét Sverrisdóttir, sem ekki hefur enn verið kjörin í eitt eða neitt, er í framboði, þótt ekki sé ljóst fyrir hvern eða hverja eða á hvaða forsendum. Aldraðir bjóða fram klofið og Framtíðarlandið með fyrrverandi fréttamann og fyrrverandi sendiherra - því framtíðin er jú þeirra - undirbýr framboð og eina græningjaflokki Íslands er gefið langt nef.


Athyglisverð stjórnskipan í Bangladesh

Í pistli á Deiglunni í dag skrifar Snæbjörn Gunnsteinsson um ansi sérstaka stjórnskipan í Bangladesh. Snæbjörn er búsettur í Bangladesh og hafa pistlar hans á Deiglunni vakið verðskuldaða athygli.

Um hið sérstaka fyrirkomulag í Bangladesh skrifar Snæbjörn meðal annars:

"Samkvæmt stjórnarskrá Bangladesh er kjörtímabilið 5 ár. Að því loknu kveður stjórnarskráin um -- og þetta ákvæði er einsdæmi í heiminum -- að við taki hlutlaus millibilsstjórn skipuð "ábyrgum samfélagsleiðtogum", svo sem hæstaréttardómurum og prófessorum, sem skuli sjá um að halda kosningar innan þriggja mánaða."

Pistill Snæbjörns í heild.


Litli og stóri vinstriflokkurinn

samfylkinginlogoÖrvæntingin vex í herbúðum Samfylkingarinnar. Við slíkar kringumstæður verða ýmsar lausnir að töfralausnum. Nýjasta 'sándbætið' er þagnarbandalag um Evrópumál sem Sjálfstæðisflokkurinn mun standa fyrir og segist formaður Samfylkingarinnar ekki ætla að taka þátt í þessu ímyndaða bandalagi.

Margir bundu miklar vonir við Ingibjörgu Sólrúnu sem leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna. Henni hefur tekist á undraskömmum tíma að tala fylgi Samfylkingarinnar niður um tæplega helming frá kjörfylgi flokksins en það sem verra er fyrir Ingibjörgu og hennar fólk er að hún á mjög undir högg að sækja innan sinna eigin herbúða.

Tilraunir Ingibjargar Sólrúnar nú til að skapa sér sérstöðu eru því skiljanlegar. Úr því sem komið er á Samfylkingin þá von kannski eina að verða flokkur um eitt til tvö mál, þar sem henni hefur augljóslega mislukkast að verða sú fjöldahreyfing sem að var stefnt. Alþýðuflokkurinn sálugi hafði fátt fram að færa í aðdraganda andláts síns annað en stefnumið um inngöngu í Evrópusambandið. Samfylkingin líkist þessum forvera sínum nú æ meira með hverjum degi sem líður.

Kannski er það ekki svo slæmt. Við stöndum þá uppi með tiltölulega lítinn frjálslyndan jafnaðarmannaflokk og heldur stærri flokk vinstrimanna. Ekki óþekkt mynstur, enda var þetta staðan þegar Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið voru í sömu sporum á árum áður. Litli og stóri vinstriflokkurinn.

Það er lykilatriði fyrir Samfylkinguna, ef hún ætlar sér að stóra hluti í stjórnarsamstarfi eftir kosningar, að formaður flokksins nái að þétta að raðirnar og gera flokkinn að sameinaðri heild. Annars vegar er það líklegra til árangurs fyrir þau stefnumál sem Samfylkingin vill ná fram og hins vegar er líklegra að samstarf við slíkan flokk verði farsælla en samstarf við sundraðan flokk.

Ef sú stefna Samfylkingarinnar að binda sig við eitt mál verður til þess að gera flokkinn samheldnari og áreiðanlegri, þá hygg ég að um gæfuspor sé að ræða fyrir formann flokksins.


Ofríki að skandinavískri fyrirmynd

snaefellAð mínu mati er krafa nýstofnaðra samtaka landeiganda um breytingu á þjóðlendulögunum allrar athygli verð. Við setningu laganna árið 1998 var eindregið varað við því að ríkisvaldið væri að slá eign sinni á hálendið með þeim sem lögin gerðu ráð fyrir. Þau varnaðarorð komu þó ekki frá þeim vinstrimönnum sem nú sjá lögunum allt til foráttu og reyna að nýta sér óánægjuna í sókn eftir vindi.

Á stofnfundi áurnefndra samtaka sem haldinn var í gær var skorað á ríkisstjórn og Alþingi að beita sér fyrir því að lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 verði breytt þegar í stað á þann veg að land, sem samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi og/eða heimildarskjali, þar á meðal fyrirvaralausu eignarafsali frá ríkinu, tilheyrir tiltekinni jörð, jörðum, upprekstrarfélagi, fjallskiladeild, sveitarfélagi eða annars konar lögpersónu, skuli teljast eignarland. Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.

Í grein sem Jónas Þór Guðmundsson, lögfræðingur og þáverandi 1. varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, skriaði í Morgunblaðið þann 6. maí 1998, setti hann fram rökstudda og málefnalega gagnrýni á það frumvarp sem Alþingi samþykkti siðar sem lög um þjóðlendur. Sagði Jónas meðal annars í greininni:

"Hér á landi hefur því aldrei verið talin gilda sama regla og í Danmörku, um að "det som ingen mand ejer, det ejer kongen". Er það kannski ekki að furða, þegar haft er í huga að Íslendingar hafa lengst af verið fráhverfir íhlutunarsömu ríkisvaldi. Í þessu felst m.ö.o., að á Íslandi eru landsvæði, sem enginn á. Slík svæði eru ekki "sameign þjóðarinnar" í skilningi eignarréttar og hafa aldrei verið. Þau á einfaldlega enginn."

Jónas Þór lauk grein sinni með eftirfarandi orðum:

"Þvert á móti eru líklegustu áhrif frumvarpsins þau, ef að lögum verður, að ýta undir ofstjórnartilhneigingar þeirra sem með ríkisvald fara á hverjum tíma, sem skerða mundu almannarétt."

Því verður ekki á móti mælt að með setningu þjóðlendulaganna sló ríkisvaldið eign sinni á land sem sátt hafði verið um frá landnámi að tilheyrðu engum, væru almenningur. Það er auðvitað fráleitt að ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins skuli hafa staðið að þess háttar ríkisvæðingu og lögfest ákvæði þess efnis að land sem enginn gæti sanna eignarrétt sinn að, þ.e. afréttir og almenningar, skyldi teljast ríkiseign.

Hæpið sýnist að snúa lögunum að öllu leyti við, enda tæpur áratugur frá lagasetningunni. Það er hins vegar vel athugandi hvort ekki sé hægt að koma til móts við sjónarmið landeigenda með þeirri lagabreytingu sem þeir hafa nú lagt til eða með þvi að ríkið setji kröfur sínar fram með þeim hætti að landeigendum sé íþyngt sem minnst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband