Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Hvað er 'herferð á alþjóðavettvangi'?
26.1.2007 | 16:49
Þann 19. janúar flutti Ríkisútvarpið landsmönnum þá váfrétt að bresk yfirvöld hyggðu á herferð á alþjóðavettvangi gegn hvalveiðum og verndarar 'herferðarinnar' væru þeir Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra, og sjónvarpsmaðurinn Richard Attenborough. Þess var jafnframt getið í fréttinni að hvalveiðar Íslendinga hefðu lengið verið Bretum þyrnir í auga og þegar atvinnuveiðar hófust sl. haust hefði íslenski sendiherrann verið kallaður á fund hjá Ben nokkrum Bradshaw, ráðherra, þar sem Íslendingar voru varaðir við afleiðingum gjörða sinna.
Þetta voru skilaboð Ríkisútvarpsins þann dag - alþjóðleg herferð, hvorki meira né minna. Hins vegar fór þessi herferð alveg fram hjá alþjóðlegum fjölmiðlum, jafnvel þótt hún væri alþjóðleg. Á gjörvöllum veraldarvefnum var nákvæmlega ekkert að finna um herferðina næstu daga eftir frétt RÚV. Engin yfirlýsing birtist heldur um herferðin á heimasíðu breska sjávarútvegsráðuneytisins sem hefur með vernd sjávardýra að gera. Ben þessi Bradshaw, sem sagður var sjávarútvegsráðherra, er raunar ráðherra nær-umhverfismála, dýra- og sjávarverndar.
Nú er komið á daginn að 'herferðin' sem Ríkisútvarpið boðaði landsmönnum var fundur sem halda á í Lundúnum þar sem Bretar munu freista þess að fá nokkur ríki sem andvíg munu vera hvalveiðum til að ganga í Alþjóða hvalveiðiráðið.
Getur verið að hagsmunum Íslendinga á erlendum mörkuðum vegna andstöðu við hvalveiðar stafi mest ógn af slíkum upphlaupum íslenskra fjölmiðla - í það minnsta virðist Ríkisútvarpið gera það sem í valdi þess stendur til að valda hugaræsingi vegna veiðanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Botnbarátta íslenskra stjórnmála
26.1.2007 | 15:51
Samkvæmt skoðanakönnunum eru Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn í botnbaráttu íslenskra stjórnmála, þar sem þeir skiptast á að verma botnsætið í hverri könnuninni á fætur annarri.
Frjálslyndir skutu keppinautum sínum ref fyrir rass með því að fanga ólundunarfylgi hjá þeim sem ekki þola að útlendingar skuli hafa sama ferða- og atvinnufrelsi hér á landi og Íslendingar njóta erlendis. Framsókn hefur ekki fallið í þann fúla pytt og með örfáum undantekningum hefur Framsóknarflokknum tekist að sneiða hjá popúlískum málflutningi sem hlýtur að vera mesta freisting allra smáflokka.
En þessir flokkar eiga það hins vegar sameiginlegt að afar undarlegar reglur gilda um kosningar innan þeirra. Í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi gátu allir sem skráðir voru í Framsóknarfélag í kjördæmi tekið þátt, óháð því hvort ættu rétt til að kjósa viðkomandi frambjóðendur í sjálfum kosningunum.
Frjálslyndir ganga þó skrefinu lengra í tvísýnu formannskjöri sem fram fer á morgun. Þar geta allir gengið inn af götunni og greitt atkvæði gegn því að greiða 2.000 krónur. Þó eru aldraðir og öryrkjar undanþegnir gjaldinu og geta því kosið "frítt". Erfitt er að segja til um það hvorri fylkingunni hentar þetta fyrirkomulag en maður skyldi þó ætla að það væri ekki sérstaklega í þágu þeirra sem telja sig til almennra og dyggra flokksmanna í Frjálslynda flokknum.
Ekki að undra að helsti trúnaðarmaður flokksins, Sveinn Aðalsteinsson, miðstjórnarmaður og kosningastjóri Frjálslyndra í Reykjavík, skyldi hafa ákveðið að taka pokann sinn og koma sér burt í tæka tíð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)