Botnbarátta íslenskra stjórnmála

Samkvæmt skoðanakönnunum eru Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn í botnbaráttu íslenskra stjórnmála, þar sem þeir skiptast á að verma botnsætið í hverri könnuninni á fætur annarri.

framsoknlogoFrjálslyndir skutu keppinautum sínum ref fyrir rass með því að fanga ólundunarfylgi hjá þeim sem ekki þola að útlendingar skuli hafa sama ferða- og atvinnufrelsi hér á landi og Íslendingar njóta erlendis. Framsókn hefur ekki fallið í þann fúla pytt og með örfáum undantekningum hefur Framsóknarflokknum tekist að sneiða hjá popúlískum málflutningi sem hlýtur að vera mesta freisting allra smáflokka.

En þessir flokkar eiga það hins vegar sameiginlegt að afar undarlegar reglur gilda um kosningar innan þeirra. Í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi gátu allir sem skráðir voru í Framsóknarfélag í kjördæmi tekið þátt, óháð því hvort ættu rétt til að kjósa viðkomandi frambjóðendur í sjálfum kosningunum.

frjalslyndirlogoFrjálslyndir ganga þó skrefinu lengra í tvísýnu formannskjöri sem fram fer á morgun. Þar geta allir gengið inn af götunni og greitt atkvæði gegn því að greiða 2.000 krónur. Þó eru aldraðir og öryrkjar undanþegnir gjaldinu og geta því kosið "frítt". Erfitt er að segja til um það hvorri fylkingunni hentar þetta fyrirkomulag en maður skyldi þó ætla að það væri ekki sérstaklega í þágu þeirra sem telja sig til almennra og dyggra flokksmanna í Frjálslynda flokknum.

Ekki að undra að helsti trúnaðarmaður flokksins, Sveinn Aðalsteinsson, miðstjórnarmaður og kosningastjóri Frjálslyndra í Reykjavík, skyldi hafa ákveðið að taka pokann sinn og koma sér burt í tæka tíð.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband