Gegn betri vitund
9.2.2007 | 13:53
Vinur minn og kunningi, Einar Mar Þórðarson, gerir orð forsætisráðherra um launamun kynjanna í ræðu á Viðskiptaþingi að umtalsefni á blogginu sínu. Einar, sem er kennari í félagsvísindadeild Háskóla Íslands, tengir þá umræðu við hugmyndir um leiðir til að einfalda lagaumhverfi fyrirtækja og gera skattaumhverfi þeirra hér á landi samkeppnishæft.
Segir Einar meðal annars af þessu tilefni:
Kynbundin launamunur er svartur blettur á íslensku viðskiptalífi og samfélaginu öllu og því ættu raunhæfar lausnir til að útrýma honum að vera forsætisráðherra ofar í huga en hvort fyrirtæki græði milljón til eða frá.
Einar Mar er glöggur maður og átta sig auðvitað á því að lægri skattar á fyrirtæki og einfaldari löggjöf er ekki spurning um hvort fyrirtæki græði milljón til eða frá. Fyrst og fremst er þetta spurning um hvort auðsköpun þessara fyrirtækja fari fram hér á landi eða annars staðar. Grundvöllur velferðar allra samfélagshópa á Íslandi er undir því kominn að hér sé til staðar nægilegt fjármagn. Og fyrir þá sem vilja að ríkisvaldið hafi hlutverki að gegna í þeim efnum er rétt að benda á orð forsætisráðherra úr áðurnefndri ræðu:
Það er sem sumir fáist ekki til að skilja að 10% af miklu er mun meira en 18% af engu.
Það er Einari Mar ekki samboðið að setja hlutina fram með þeim hætti sem hann gerir. Hann ætti fremur að hugsa um að byggja upp orðspor sitt sem fræðimanns en að taka þátt í einhverjum spunadansi. Hvatnig ráðamanna til stjórnenda fyrirtækja um að greiða sömu laun fyrir sambærilega vinnu og huga að jafnrétti í þeim efnum er síður en svo í mótsögn við að haga regluverki hér á landi með þeim hætti að hér verði áframhaldandi uppgangur og auðsköpun til hagsbóta fyrir allra þjóðfélagshópa.
Of margir íslenskir fræðimenn á sviði félagsvísinda eru svo að segja ómarktækir vegna stjórnmálaskoðanna sinna og því hvernig þær lita framgöngu þeirra. Það væri synd að sjá Einar Mar bætast í þann hóp.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.