Þjóðareign vísar ekki til einkaeignarréttar ríkisins

Stjórn sambands ungra sjálfstæðismanna samþykkti í kvöld eftirfarandi ályktun vegna frumvarps til stjórnskipulaga sem kynnt var af formönnum stjórnarflokkanna síðdegis:

"Samband ungra sjálfstæðismanna leggst eindregið gegn því að sett verði inn ákvæði í stjórnarskrá þar sem kveðið er á um að náttúruauðlindir séu þjóðareign. Skýr einkaeignaréttur að náttúruauðlindum er hornsteinn skynsamlegrar nýtingar auðlinda í allra þágu. Þjóðnýting hefur hvarvetna leitt til sóunar og lakari lífskjara.

Engu að síður telur Samband ungra sjálfstæðismanna það mikilvægt að skýrt sé kveðið á um í frumvarpi formanna stjórnarflokkanna að á engan hátt sé verið að raska eignaréttindum einstaklinga og lögaðila. Þannig eru atvinnu- og eignarréttindum þeirra sem nýta auðlindir Íslands tryggð stjórnarskrárvernd. SUS leggur ááherslu á að fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að orðalagið "þjóðareign" vísar ekki til einhvers konar einkaeignarréttar íslenska ríkisins eða þjóðarinnar.

Ungir sjálfstæðismenn skora á þingmenn Sjálfstæðisflokksins og þingheim allan að vanda verði til verka við fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni. Það má aldrei verða að grundvallarlögum íslenskrar stjórnskipunar sé breytt í óðagoti og án þess að tryggt sé að ákvæði stjórnarskrárinnar séu skýr og hafin yfir allan vafa."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband