Frambjóðandi eða faglegur sviðsstjóri?
29.4.2007 | 23:10
Á Deiglunni er að finna athyglisverða frétt um sviðsstjóra á geðdeild LSH sem jafnframt skipar 13. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæm norður:
Fréttin er svohljóðandi:
Í umræðum um ástand mála hjá BUGL á síðustu dögum, rétt fyrir kosningar, hefur sviðstjórinn Eydís Sveinbjarnadóttir haft sig mjög í frammi en lítið látið þess getið að hún sé frambjóðandi Samfylkingar. Hún kom meðal annars fram í frétt á Stöð 2 fyrir skemmstu þar sem hún beinlínis lýsti yfir neyðarástandi. Fréttamenn Stöðvar 2 létu þess ógetið að sviðsstjórinn væri frambjóðandi í alþingiskosningum, en hún skipar 13. sæti á lista Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Það sem vekur enn frekar spurningar um áreiðanleika Eydísar er að í janúar skrifaði hún grein í Morgunblaðið þar sem hún segir meðal annars að fjárveitingar til BUGL hafi verið auknar. Eydis segir m.a. í greininni:
"Fjárveitingar til BUGL hafa aukist á undanförnum árum sem var nauðsynlegt m.a. vegna aukinnar þjónustueftirspurnar. Alþingi ákvarðar LSH fjárveitingar og hin ýmsu svið LSH reyna að aðlaga starfsemi sína þeim fjármunum sem til skipta eru hverju sinni."
Enn fremur fjallar Eydís um það í greininni að nýtt húsnæði verði tekið í notkun á næsta ári. Nú þegar kosningar nálgast, og félagar Eydísar í Samfylkingunni þurfa að mála raunveruleikann sem dekkstum litum, virðist sem veður hafi skipast mjög í kollinum á sviðsstjóranum. Í stað þess að sjá vonarglætu í þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til, heldur Eydís því fram að um neyðarástand sé að ræða.
Það hlýtur að vekja spurningur að opinber starfsmaður skuli með þessum hætti nota aðstöðu sína til þess að gera stöðu stofnunar sinnar að pólitísku bitbeini - sérstaklega þegar hinn opinberi starfsmaður er sjálfur þátttakandi í þeirri flokkspólitík.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vonbrigði Egils
29.4.2007 | 14:39
Egill Helgason lýsti því yfir í þætti sínum í dag að Sjálfstæðisflokkurinn ræki hundleiðinlega kosningabaráttu.
Sjálfstæðismenn ættu eiginlega skammast sín fyrir að valda Agli slíkum vonbrigðum. Kosningabaráttan á auðvitað að vera skemmtiefni fyrir stjórnmálaskýrendur - það blasir við.
Aðgát skal höfð
29.4.2007 | 14:23
Ég er sammála Guðmundi Magnússyni í þessu Jónínu-máli. Nú sem oftar er Guðmundur rödd skynseminnar:
Það hefur enn ekkert komið fram sem sýnir fram á að Jónína Bjartmarz hafi beitt áhrifum sínum sem þingmaður og ráðherra til að tryggja væntanlegri tengdadóttur sinni íslenskan ríkisborgararétt. Ef fjölmiðlar hefðu undir höndum skrifleg gögn eða vitnisburð einhverra sem sýndi fram á hið gagnstæða væri málið allt hið alvarlegasta. Eini vitnisburðurinn sem fram hefur komið, þ.e. ummæli þingmanna í allsherjarnefnd Alþingis, er Jónínu í hag.
Auðvitað eiga fjölmiðlar að líta á þessi mál gagnrýnum augum en þegar ekkert bendir til þess að Jónína hafi beitt áhrifum sínum, þá verða menn að fara varlega í sínum fréttaflutningi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frjáls verslun er hagur íslenskra bænda
16.3.2007 | 11:15
Nýleg könnun sýnir að íslenskir neytendur eru reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir íslenskar landbúnaðarvörur en innfluttar. Í þessu ljósi blasir við að engin þörf er á verndartollum og öðrum innflutningshöftum.
Þetta er umfjöllunarefni í Deiglupistli eftir mig sem birtist í dag.
Þjóðareign vísar ekki til einkaeignarréttar ríkisins
9.3.2007 | 01:04
Stjórn sambands ungra sjálfstæðismanna samþykkti í kvöld eftirfarandi ályktun vegna frumvarps til stjórnskipulaga sem kynnt var af formönnum stjórnarflokkanna síðdegis:
Engu að síður telur Samband ungra sjálfstæðismanna það mikilvægt að skýrt sé kveðið á um í frumvarpi formanna stjórnarflokkanna að á engan hátt sé verið að raska eignaréttindum einstaklinga og lögaðila. Þannig eru atvinnu- og eignarréttindum þeirra sem nýta auðlindir Íslands tryggð stjórnarskrárvernd. SUS leggur ááherslu á að fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að orðalagið "þjóðareign" vísar ekki til einhvers konar einkaeignarréttar íslenska ríkisins eða þjóðarinnar.
Ungir sjálfstæðismenn skora á þingmenn Sjálfstæðisflokksins og þingheim allan að vanda verði til verka við fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni. Það má aldrei verða að grundvallarlögum íslenskrar stjórnskipunar sé breytt í óðagoti og án þess að tryggt sé að ákvæði stjórnarskrárinnar séu skýr og hafin yfir allan vafa."
Pólitísk samstaða um popúlisma
22.2.2007 | 12:30
Þótt ýmsum hópum og jafnvel stórum hluta almennings misbjóði einhver háttsemi einstaklinga eða hópa í samfélaginu, þá má það ekki eitt og sér verða til fordæmingar eða valdbeitingar af hálfu ríkisvaldsins, að því gefnu að háttsemin sé ekki brot á lögum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í Deiglupistli eftir mig sem birtist í dag.
Fráleit vinnubrögð Stöðvar 2
22.2.2007 | 00:12
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld var birtur hluti af viðtali sem Heimir Már Pétursson tók við mig fyrr í dag vegna umræðu um svokalla klámráðstefnu. Framsetning fréttarinnar af hálfu fréttastofu Stöðvar 2 er fyrir neðan allar hellur.
Í viðtalinu svaraði ég spurningum um hvort það ætti að banna því fólki að koma hingað til lands til samkomuhalds sem ég taldi fráleitt á þeim forsendum sem fyrir lægju. Stjórnmálamenn mættu ekki beita opinberu valdi með þeim hætti, þótt þeir hefðu vanþóknun á iðju viðkomandi. Öðru máli gegndi auðvitað um ef grunur léki á um eða fyrir lægi að lögbrot hefðu verið framin, það væri lögreglumál.
Inngangi fréttarinnar fer Sigmundur Ernir, fréttastjóri Stöðvar 2, með eftirfarandi texta:
"Leiðtogi ungra sjálfstæðismanna segir fráleitt að banna þessu fólki að koma til landsins. Ekkert mál sé að verða sér úti um klám á Íslandi án milligöngu Netsins."
Þarna er því haldið fram að ég hafi látið þau orð falla að ekkert mál væri að verða sér úti um klám á Íslandi án milligöngu Netsins. Það er beinlínis rangt. Þá er þetta sett fram í beinu framhaldi af því að ég hafi sagt fráleitt að hefta ferðafrelsi viðkomandi, eins og það sé vegna þess að fólk geti hvort eð er orðið sér úti um klám hér á landi.
Með því að setja seinni málsliðinn í viðtengingarhátt er ranglega verið að eigna mér þessi orð. Þetta eru afar ófagleg vinnubrögð, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki stimpilstofnun fyrir hagsmunasamtök
21.2.2007 | 16:17
Forgangsröðun stjórnarandstöðunnar, einkum þingmanna Samfylkingarinnar, er á stundum hreint kostuleg. Skipun menntamálaráðherra í fagráð Norræna blaðamannaskólans var gerð að umræðuefni á Alþingi í dag að frumkvæði Marðar Árnasonar. Tilefnið var að ráðherra fór ekki að tillögu Blaðamannafélags Íslands um skipan í ráðið.
Í umræðunum krafðist Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, þess að ráðherra bæðist afsökunar á mistökunum og tilkynnti að framvegis yrði unnið samkvæmt hefðinni, en þvi er haldið fram að jafnan hafi verið farið eftir tillögum BÍ varðandi skipun í þetta ráð. Krafa Björgvins gengur þannig út að ráðherra afsali sér í raun skipunarvaldinu með formlegum og bindandi hætti til hagsmunaaðila út í bæ.
Ráðherra ber pólitíska ábyrgð á skipunum sínum og þá ábyrgð getur hann ekki lagt á herðar einhverra umsagnaraðila. Eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti réttilega á í dag, þá eru ráðuneytin ekki sjálfvirkir stimpilpúðar fyrir hagsmunasamtök.
Það er hins vegar athyglisvert að þingmönnum Samfylkingarinnar virtist ekki mjög umhugað um halda sig við venjur þegar forseti Íslands gekk á skjön við ríka stjórnskipunarhefð og tók sér neitunarvald í fjölmiðlamálinu svokallaða.
Ólíkt forsetanum er menntamálaráðherra að sinna því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum; að bera ábyrgð á stjórnarathöfnum sínum.
Misskiptingin í Draumaríkinu
19.2.2007 | 14:00
Samkvæmt skýrslu Hagstofunnar um tekjuskiptingu er ójöfnuður meiri í nánast öllum Evrópuríkjum en raunin er hér á landi. Sá flokkur sem mest hefur gert úr meintum ójöfnuði á Íslandi er jafnframt sá flokkur sem harðast hefur barist fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Það hefur svo sem legið fyrir að Samfylkingin vill fara með Ísland inn í bandalag þar sem hagvöxtur er mun minni en hér á landi, kaupmáttur miklu lægri og atvinnuleysi jafnframt meira.
Og nú eru enn ein rökin komin fram; ójöfnuður í Evrópusambandinu er mun meiri en hér á landi.
[Má til með að benda á leiðara Deiglunnar í dag um klámstefnuna miklu...]
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Holur hljómur
16.2.2007 | 11:36
Það er holur hljómur í málflutningi varaformanns Samfylkingarinnar þegar hann segir að flokkur sinn fagni umræðu um jafnréttismál. Ágústi Ólafi og félögum væri hollara að beina athyglinni að öðrum hlutum, því staða kvenna innan Samfylkingarinnar er ekkert til guma af.
Á þetta bendir Eygló Harðardóttir í ágætum pistli á bloggi sínu í dag og segir þar m.a.:
"Miðað við þær forsendur að þeir sem leiða lista eigi að verða ráðherrar þá er bara eitt ráðherraefni hjá Samfylkingunni, þ.a.s. Ingibjörg Sólrún sjálf. Að öðru leyti eru listar Samfylkingarinnar leiddir af körlum."
Árni Helgason fjallar líka um þetta á blogginu sínu og vitnar í nýlegt viðtal við Guðrúnu Ögmundsdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu, þar sem hún segir að karlkynsframbjóðendur hafi unnið sameiginlega gegn henni í prófkjöri Samfylkingarinnar í haust.
Þeim fer óðfluga fækkandi málunum sem Samfylkingin hefur fótfestu í. Hart er orðið í ári þegar femínistar flýja umvörpum þetta skilgetna afkvæmi Kvennalistans sáluga.