Þetta próf X-hvað frá Bifröst er eiginlega alveg óborganlega fyndið. Það virðist ekki vera nokkur leið að taka prófið án þess að út úr því komi að maður eigi helst samleið með Samfylkingunni eða VG.
Best er þó niðurstaðan sem kemur þegar hakað er við "Hef enga skoðun" í öllum valmöguleikum. Þá kemur niðurstaðan:
Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Samfylkingarinnar
Nokkuð nærri lagi reyndar...
Þrymur gerir reyndar ítarlega grein fyrir því á blogginu sínu hversu sniðugir höfundar "prófsins" eru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það tekur 4 daga að vinna sér inn fyrir því sem áður tók 7 vinnudaga
9.5.2007 | 15:58
Vaxandi kaupmáttur þýðir hins vegar að launin duga betur. 75% kaupmáttaraukning yfir ríflega þrjú kjörtímabil þýðir því að það tekur 4 daga að vinna sér inn fyrir því sem áður tók 7 vinnudaga.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í leiðara dagsins á Deiglunni sem er skrifaður af Halldóri Benjamín Þorbergssyni.
Össur tekinn í bólinu
9.5.2007 | 11:02
Össur Skarphéðinsson er heldur betur tekinn í bólinu eftir að hafa fordæmt unga sjálfstæðismenn fyrir að bjóða nemendum í Háskólanum í Reykjavík í partý. Í ljós kom að gagnrýni Össurar hitti hann sjálfan verst fyrir. Hversu "óheppnir" geta menn verið?!
Af hverju ætti þeim að vera treystandi nú?
7.5.2007 | 14:54
Síðustu daga hefur Samfylkingin auglýst nýja kynslóð jafnaðarmanna úr röðum frambjóðenda sinna fyrir komandi kosninga. Myndirnar prýðir hópur af ungu fólki ásamt formanninum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
Það er ekki óvitlaust hjá Samfylkinginu að leggja áherslu á að sýna þetta unga fólk. Eflaust þjónar það hagsmunum flokksins betur en að sýna þá frambjóðendur sem eiga raunhæfa möguleika á þingsæti. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum fengi Samfylkingin 16 þingmenn kjörna á laugardaginn og hefur raunar ekki mælst hærri um nokkurra vikna skeið.
Á fundi í Keflavík 2. desember sl. hélt formaður Samfylkingarinnar ræðu, þar sem hún sagði meðal annars:
Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum ekki ennþá, ekki hingað til.
Í ljósi þessara ummæla Ingibjargar Sólrúnar er athyglisvert að skoða hverjir það eru sem sitja munu í "nýjum" þingflokki Samfylkingarinnar að loknum kosningum.
Það skal tekið fram fyrir þá sem ekki til þekkja að svarthvítu myndirnar eru af fólki úr þingflokknum sem formaður Samfylkingarinnar sagði að þjóðin treysti ekki. Litmyndirnar eru af nýja fólkinu, þremur körlum.
Þingmenn Samfylkingarinnar að loknum kosningum verða samkvæmt þessu: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannsdóttir, Mörður Árnason, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar, Gunnar Svavarsson, Katrín Júlíusdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Árni Páll Árnason, Guðbjartur Hannesson, Kristján Möller, Einar Már Sigurðsson, Björgvin G. Sigurðsson og Lúðvík Bergvinsson.
Endurnýjun þingflokksins er fólgin í tilkomu Gunnars Svavarssonar, Árna Páls Árnasonar og Guðbjarts Hannessonar.
Ef þessum þingflokki var ekki treystandi að mati formanns Samfylkingarinnar fyrir fimm mánuðum, af hverju ættu kjósendur að treysta honum nú?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Æviskeið feðgina spannar tæpar tvær aldir
4.5.2007 | 15:11
Í dag var jarðsungin í Reykjavík María Tryggvadóttir en hún lést 28. apríl síðastliðinn á 90. aldursári. Eins og lesa má um í minningu um Maríu í Morgunblaðinu var hún dóttir Helgu Jónasdóttur, kennara, og Tryggva Gunnarssonar, bankastjóra.
Tryggvi Gunnarsson, faðir Maríu, var bankastjóri, þjóðkunnur maður og einn af mestu áhrifamönnum í þjóðmálum hér á landi á 19. öldinni. Tryggvi var fæddur árið 1835 og andaðist skömmu áður en María fæddist þann 17. nóvember 1917.
Það er merkileg staðreynd að æviskeið þeirra feðgina, Tryggva og Maríu, spannar tæplega tvær aldir, eða frá 18. október 1835 til 27. apríl 2007, samtals 172 ár.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góður leiðari hjá Þorsteini
3.5.2007 | 09:07
Þorsteinn Pálsson skrifar í dag ágætan leiðara í Fréttablaðið þar sem hann tekur fyrir hlutverk forseta við stjórnarmyndun. Í leiðaranum segir meðal annars:
Engum vafa er því undirorpið að allt vald varðandi myndun og setu ríkisstjórnar er í höndum Alþingis. Enga ríkisstjórn er unnt að mynda og engin ríkisstjórn getur setið án stuðnings eða hlutleysis meirihluta Alþingis. Forsetinn er hluti af framkvæmdavaldinu og verður að lúta vilja Alþingis í þessu efni.
Þær áhyggjur sem höfundar Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins lét í ljós á dögunum eru óþarfar, eins og ég hef bent á. Auðvitað má með réttu halda því fram að ekki sé ólíklegt að núveranda forseta, sem er fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, hugnaðist best að hér tæki við vinstri stjórn að loknum kosningum. En Þorsteinn svarar þessum vangaveltum í niðurlagi leiðara síns:
Loks kemur til skoðunar hvort forseti geti beitt áhrifum sínum, vegna tengsla við forystumenn í stjórnmálum, í þeim tilgangi að skapa samstöðu um að ríkisstjórn verði mynduð á einn veg fremur en annan. Ekkert kemur í veg fyrir það. Slík tengsl geta reyndar virkað á báða bóga. Ef forsetinn er á annað borð opinn fyrir því geta stjórnmálaforingjarnir líka notað hann í þessu skyni.
Beiting áhrifa felur hins vegar ekki í sér neitt beint stjórnskipulegt vald. Í hverjum flokki má finna áhrifamenn sem geta beitt sér með svipuðum hætti og í sama tilgangi gagnvart einstökum flokksformönnum. Vilji forsetinn blanda sér í þann hóp er það í sjálfu sér ekkert ólýðræðislegra af hálfu hans en annarra. Það getur hins vegar haft víðtækari áhrif á álit hans og stöðu.
Hver sem hugur forsetans er getur hann aldrei tekið sér vald eða gengið í aðra átt en meirihluti Alþingis er fús að sætta sig við. Þar er ekkert stjórnskipulegt tómarúm.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fréttafölsun á fréttastofu Ríkisútvarpsins
2.5.2007 | 23:02
Steingrímur Ólafsson greinir frá neyðarlegri uppákomu hjá Ríkisútvarpinu sem oftar en ekki gumar af vandaðri blaðamennsku:
Krísufundir hafa verið haldnir hjá fréttastofu Útvarps eftir frekar ófaglega fréttamennsku. Fréttastofan tók þannig viðtal sem tekið var við Geir H. Haarde forsætisráðherra á mánudagskvöld út af sölu á hlut í Hitaveitu Suðurnesja og notaði það viðtal til að nota sem svar forsætisráðherra við vitleysunni í Skúla Thoroddsen hjá Starfsgreinasambandinu um ímyndaða sölu á Landsvirkjun.
Ný frétt var s.s. búin til með því að skeyta gömlu viðtali aftan við eins og það væru viðbrögð.
Ófagmannlegt og voru haldnir neyðarfundir á fréttastofu RÚV. Óðinn Jónsson, fréttastjóri, var ekki á vakt þegar þetta átti sér stað og hefur samkvæmt því sem rætt er um innan RÚV beðið forsætisráðherra afsökunar á þessari fréttafölsun.
Ingimar Karl Helgason, sem bjó til þessa frétt er víst heldur niðurlútur.
Og á að vera það.
Því er reyndar við þetta að bæta að Morgunblaðið tók frétt Ingimars svotil óbreytta upp á sinn fréttavef, mbl.is. Það er aldrei gott að treysta öðrum í blindni.
Óþarfar áhyggjur
1.5.2007 | 13:23
Að mínu mati eru áhyggjur leiðarahöfundar Morgunblaðsins og einstakra þingmanna af því að forseti Íslands muni að loknum kosningum beita sér fyrir því að hér verði mynduð vinstri stjórn óþarfar, þótt þær kunni að vissu leyti að vera skiljanlegar.
Þar ræður mestu að stjórnarmyndun er í raun á forræði formanna flokkanna eða þingflokka þeirra eftir atvikum. Hvort málefnaleg samstaða náist milli flokka um myndun ríkisstjórnar hefur ekkert með forseta Íslands að gera. Sé til staðar vilji til meirihlutasamstarfs mun afstaða forseta Íslands ekki ráða neinu þar um.
Atbeini forsetans að stjórnarmyndun öðlast fyrst raunverulega þýðingu þegar hinir kjörnu fulltrúar ná ekki saman, þegar flokkarnir finna ekki grundvöll fyrir meirihlutastjórn. Þá kann að koma til kasta forsetans um að finna slíkan grundvöll til að koma í veg fyrir stjórnarkreppu.
Þótt ekki sé hægt að fullyrða neitt, þá bendir fátt til þess að einhverjir þeirra flokka sem bjóða fram til Alþingis muni ekki ná að mynda ríkisstjórn. Það eru engar slíkar brotalínur í íslenskri pólitík sem valda því að einstakir flokkar eru óstjórntækir frá sjónarhóli annarra flokka.
Ég tel því að ofangreindar áhyggjur séu að svo stöddu með öllu óþarfar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að tapa bæði kosningum og ærunni
30.4.2007 | 16:21
Kosningabaráttu Samfylkingarinnar eru gerð ágæt skil í leiðara Deiglunnar í dag. Þar segir meðal annars:
Fram hefur komið í fréttum að tíu ára stúlka hafi ekki fengið innlögn þegar leitað var á sjúkrahús vegna sjálfsvígshugleiðinga hennar. Þetta hafa verið hryggileg mistök í læknisþjónustu, en væntanlega vita flestir að slík mistök eiga nákvæmlega ekkert skylt við flokkspólitískar deilur. Samfylkingarmaðurinn Össur Skarphéðinsson virðist þó ekki telja það fyrir neðan sína virðingu að beita slíku máli fyrir síg í pólitísku hnútukasti, eins og hann gerði í Silfri Egils í gær. Slíkur málflutningur er auðvitað ekkert annað en viðbjóðslegur og vonandi dettur engum í hug að dæma Össur eða Samfylkinguna eingöngu af þessu einstaka smekkleysi.
Á þessum síðustu vikum fyrir kosningar hefur Samfylkingin fallið í þann pytt að herja á kjósendur með óvönduðum málflutningi, dylgjum og útúrsnúningum. Hún dylgjar um mannvonsku stjórnarflokkana, lofar aðgerðum sem þegar er búið að ákveða og beitir fyrir sig mistökum í læknisþjónustu til þess að leggja snöru fyrir andstæðinga sína í baráttunni. Mönnum kann stundum að hlaupa kapp í kinn í slagnum og segja ýmislegt ógætilegt. En þótt Samfylkingin tapi kosningunum er ekki þar með sagt að fulltrúar hennar þurfi líka að tapa sómakenndinni.
Stóra kosningamálið
30.4.2007 | 13:30
Af hverju eru menn að segja að kosningarnar snúist ekki um neitt? Stóra kosningamál stjórnarandstöðunnar nú þegar 12 dagar eru kosninga eru tannskemmdir. Hvað segir það okkur um ástand mála í íslensku samfélagi?
Stjórnarandstöðunni verður nú tíðrætt um tannlækningar og tannvernd barna sem þau segja að fari hrakandi og kenna ríkisstjórninni um. Meðal annars er talað um að ríkisstjórnin hafi dregið úr framlögum sínum og jafnvel að tannlækningar hafi verið einkavæddar. Þetta er villandi umræða. Þó tannlækningar séu vissulega ekki reknar af hinu opinbera, endurgreiðir Tryggingarstofnun ríkisins 75% af tannlæknakostnaði barna undir 17 ára aldri og kemur þannig að verulegu leyti til móts við þennan kostnað.
Meðal þess sem hefur verið í umræðunni er skýrsla frá MunnÍs frá því snemma á árinu þar sem fram kemur að tannheisla barna sé verri árið 2005 en árið 1996 og tannskemmdir algengari. Þetta eru hins vegar ekki sambærilegar niðurstöður, þar sem ólíkum aðferðum var beitt við rannsóknir. Árið 1996 var beint sjónrænni skoðun til að meta tannskemmdir en árið 2005 var mun nákvæmari aðferðum beitt auk þess sem röntgenmyndir gera greiningu á skemmdum betri. Í skýrslu MunnÍs er tekið fram að ef sjónrænu aðferðinni hefði aftur verið beitt árið 2005 hefðu breytingarnar á tannheilsu barna verið litlar. Það sem mestu máli skiptir er að rannsóknaraðferðirnar eru ólíkar.
Þetta er nú svona það helsta um mál málanna í þingkosningum á Íslandi árið 2007.