Ofríki að skandinavískri fyrirmynd
27.1.2007 | 00:25
Að mínu mati er krafa nýstofnaðra samtaka landeiganda um breytingu á þjóðlendulögunum allrar athygli verð. Við setningu laganna árið 1998 var eindregið varað við því að ríkisvaldið væri að slá eign sinni á hálendið með þeim sem lögin gerðu ráð fyrir. Þau varnaðarorð komu þó ekki frá þeim vinstrimönnum sem nú sjá lögunum allt til foráttu og reyna að nýta sér óánægjuna í sókn eftir vindi.
Á stofnfundi áurnefndra samtaka sem haldinn var í gær var skorað á ríkisstjórn og Alþingi að beita sér fyrir því að lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 verði breytt þegar í stað á þann veg að land, sem samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi og/eða heimildarskjali, þar á meðal fyrirvaralausu eignarafsali frá ríkinu, tilheyrir tiltekinni jörð, jörðum, upprekstrarfélagi, fjallskiladeild, sveitarfélagi eða annars konar lögpersónu, skuli teljast eignarland. Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.
Í grein sem Jónas Þór Guðmundsson, lögfræðingur og þáverandi 1. varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, skriaði í Morgunblaðið þann 6. maí 1998, setti hann fram rökstudda og málefnalega gagnrýni á það frumvarp sem Alþingi samþykkti siðar sem lög um þjóðlendur. Sagði Jónas meðal annars í greininni:
"Hér á landi hefur því aldrei verið talin gilda sama regla og í Danmörku, um að "det som ingen mand ejer, det ejer kongen". Er það kannski ekki að furða, þegar haft er í huga að Íslendingar hafa lengst af verið fráhverfir íhlutunarsömu ríkisvaldi. Í þessu felst m.ö.o., að á Íslandi eru landsvæði, sem enginn á. Slík svæði eru ekki "sameign þjóðarinnar" í skilningi eignarréttar og hafa aldrei verið. Þau á einfaldlega enginn."
Jónas Þór lauk grein sinni með eftirfarandi orðum:
"Þvert á móti eru líklegustu áhrif frumvarpsins þau, ef að lögum verður, að ýta undir ofstjórnartilhneigingar þeirra sem með ríkisvald fara á hverjum tíma, sem skerða mundu almannarétt."
Því verður ekki á móti mælt að með setningu þjóðlendulaganna sló ríkisvaldið eign sinni á land sem sátt hafði verið um frá landnámi að tilheyrðu engum, væru almenningur. Það er auðvitað fráleitt að ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins skuli hafa staðið að þess háttar ríkisvæðingu og lögfest ákvæði þess efnis að land sem enginn gæti sanna eignarrétt sinn að, þ.e. afréttir og almenningar, skyldi teljast ríkiseign.
Hæpið sýnist að snúa lögunum að öllu leyti við, enda tæpur áratugur frá lagasetningunni. Það er hins vegar vel athugandi hvort ekki sé hægt að koma til móts við sjónarmið landeigenda með þeirri lagabreytingu sem þeir hafa nú lagt til eða með þvi að ríkið setji kröfur sínar fram með þeim hætti að landeigendum sé íþyngt sem minnst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.