Litli og stóri vinstriflokkurinn

samfylkinginlogoÖrvæntingin vex í herbúðum Samfylkingarinnar. Við slíkar kringumstæður verða ýmsar lausnir að töfralausnum. Nýjasta 'sándbætið' er þagnarbandalag um Evrópumál sem Sjálfstæðisflokkurinn mun standa fyrir og segist formaður Samfylkingarinnar ekki ætla að taka þátt í þessu ímyndaða bandalagi.

Margir bundu miklar vonir við Ingibjörgu Sólrúnu sem leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna. Henni hefur tekist á undraskömmum tíma að tala fylgi Samfylkingarinnar niður um tæplega helming frá kjörfylgi flokksins en það sem verra er fyrir Ingibjörgu og hennar fólk er að hún á mjög undir högg að sækja innan sinna eigin herbúða.

Tilraunir Ingibjargar Sólrúnar nú til að skapa sér sérstöðu eru því skiljanlegar. Úr því sem komið er á Samfylkingin þá von kannski eina að verða flokkur um eitt til tvö mál, þar sem henni hefur augljóslega mislukkast að verða sú fjöldahreyfing sem að var stefnt. Alþýðuflokkurinn sálugi hafði fátt fram að færa í aðdraganda andláts síns annað en stefnumið um inngöngu í Evrópusambandið. Samfylkingin líkist þessum forvera sínum nú æ meira með hverjum degi sem líður.

Kannski er það ekki svo slæmt. Við stöndum þá uppi með tiltölulega lítinn frjálslyndan jafnaðarmannaflokk og heldur stærri flokk vinstrimanna. Ekki óþekkt mynstur, enda var þetta staðan þegar Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið voru í sömu sporum á árum áður. Litli og stóri vinstriflokkurinn.

Það er lykilatriði fyrir Samfylkinguna, ef hún ætlar sér að stóra hluti í stjórnarsamstarfi eftir kosningar, að formaður flokksins nái að þétta að raðirnar og gera flokkinn að sameinaðri heild. Annars vegar er það líklegra til árangurs fyrir þau stefnumál sem Samfylkingin vill ná fram og hins vegar er líklegra að samstarf við slíkan flokk verði farsælla en samstarf við sundraðan flokk.

Ef sú stefna Samfylkingarinnar að binda sig við eitt mál verður til þess að gera flokkinn samheldnari og áreiðanlegri, þá hygg ég að um gæfuspor sé að ræða fyrir formann flokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband