Heggur sá er hlífa skyldi
29.1.2007 | 23:18
Var það ekki Jón Baldvin Hannibalsson sem kvartaði undan því um árið að hafa verið stunginn rýtingi í bakið í pólitískum skilningi? Hvað má þá segja um atlögu Jóns að eftirmanni hans á formannsstóli íslenskra jafnaðarmanna?
Þótt því verði vart á móti mælt að Jón hafi nokkuð til síns máls, þá er framkoma hans gagnvart formanni Samfylkingarinnar afar ódrengileg, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eiginlega er maður gáttaður að horfa upp á fyrrverandi leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna, sem formaður Samfylkingarinnar hefur lagt traust sitt á, koma aftan að samherja sínum með þessum hætti.
Staðan á vinstri væng stjórnmálanna er að verða kunnugleg. Þar kólnar kaffibandalagið hratt og klofna flokkar sem ekki hafa enn verið stofnaðir. Hvítt afl hefur yfirtekið Frjálslynda flokkinn og Margrét Sverrisdóttir, sem ekki hefur enn verið kjörin í eitt eða neitt, er í framboði, þótt ekki sé ljóst fyrir hvern eða hverja eða á hvaða forsendum. Aldraðir bjóða fram klofið og Framtíðarlandið með fyrrverandi fréttamann og fyrrverandi sendiherra - því framtíðin er jú þeirra - undirbýr framboð og eina græningjaflokki Íslands er gefið langt nef.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.1.2007 kl. 00:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.