Óþarfar áhyggjur
1.5.2007 | 13:23
Að mínu mati eru áhyggjur leiðarahöfundar Morgunblaðsins og einstakra þingmanna af því að forseti Íslands muni að loknum kosningum beita sér fyrir því að hér verði mynduð vinstri stjórn óþarfar, þótt þær kunni að vissu leyti að vera skiljanlegar.
Þar ræður mestu að stjórnarmyndun er í raun á forræði formanna flokkanna eða þingflokka þeirra eftir atvikum. Hvort málefnaleg samstaða náist milli flokka um myndun ríkisstjórnar hefur ekkert með forseta Íslands að gera. Sé til staðar vilji til meirihlutasamstarfs mun afstaða forseta Íslands ekki ráða neinu þar um.
Atbeini forsetans að stjórnarmyndun öðlast fyrst raunverulega þýðingu þegar hinir kjörnu fulltrúar ná ekki saman, þegar flokkarnir finna ekki grundvöll fyrir meirihlutastjórn. Þá kann að koma til kasta forsetans um að finna slíkan grundvöll til að koma í veg fyrir stjórnarkreppu.
Þótt ekki sé hægt að fullyrða neitt, þá bendir fátt til þess að einhverjir þeirra flokka sem bjóða fram til Alþingis muni ekki ná að mynda ríkisstjórn. Það eru engar slíkar brotalínur í íslenskri pólitík sem valda því að einstakir flokkar eru óstjórntækir frá sjónarhóli annarra flokka.
Ég tel því að ofangreindar áhyggjur séu að svo stöddu með öllu óþarfar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.