Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Pólitísk samstaða um popúlisma

Þótt ýmsum hópum og jafnvel stórum hluta almennings misbjóði einhver háttsemi einstaklinga eða hópa í samfélaginu, þá má það ekki eitt og sér verða til fordæmingar eða valdbeitingar af hálfu ríkisvaldsins, að því gefnu að háttsemin sé ekki brot á lögum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Deiglupistli eftir mig sem birtist í dag.


Fráleit vinnubrögð Stöðvar 2

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld var birtur hluti af viðtali sem Heimir Már Pétursson tók við mig fyrr í dag vegna umræðu um svokalla klámráðstefnu. Framsetning fréttarinnar af hálfu fréttastofu Stöðvar 2 er fyrir neðan allar hellur.

Í viðtalinu svaraði ég spurningum um hvort það ætti að banna því fólki að koma hingað til lands til samkomuhalds sem ég taldi fráleitt á þeim forsendum sem fyrir lægju. Stjórnmálamenn mættu ekki beita opinberu valdi með þeim hætti, þótt þeir hefðu vanþóknun á iðju viðkomandi. Öðru máli gegndi auðvitað um ef grunur léki á um eða fyrir lægi að lögbrot hefðu verið framin, það væri lögreglumál.

Inngangi fréttarinnar fer Sigmundur Ernir, fréttastjóri Stöðvar 2, með eftirfarandi texta:

"Leiðtogi ungra sjálfstæðismanna segir fráleitt að banna þessu fólki að koma til landsins. Ekkert mál sé að verða sér úti um klám á Íslandi án milligöngu Netsins."

Þarna er því haldið fram að ég hafi látið þau orð falla að ekkert mál væri að verða sér úti um klám á Íslandi án milligöngu Netsins. Það er beinlínis rangt. Þá er þetta sett fram í beinu framhaldi af því að ég hafi sagt fráleitt að hefta ferðafrelsi viðkomandi, eins og það sé vegna þess að fólk geti hvort eð er orðið sér úti um klám hér á landi.

Með því að setja seinni málsliðinn í viðtengingarhátt er ranglega verið að eigna mér þessi orð. Þetta eru afar ófagleg vinnubrögð, svo ekki sé fastar að orði kveðið.


Ekki stimpilstofnun fyrir hagsmunasamtök

Forgangsröðun stjórnarandstöðunnar, einkum þingmanna Samfylkingarinnar, er á stundum hreint kostuleg. Skipun menntamálaráðherra í fagráð Norræna blaðamannaskólans var gerð að umræðuefni á Alþingi í dag að frumkvæði Marðar Árnasonar. Tilefnið var að ráðherra fór ekki að tillögu Blaðamannafélags Íslands um skipan í ráðið.

Í umræðunum krafðist Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, þess að ráðherra bæðist afsökunar á mistökunum og tilkynnti að framvegis yrði unnið samkvæmt hefðinni, en þvi er haldið fram að jafnan hafi verið farið eftir tillögum BÍ varðandi skipun í þetta ráð. Krafa Björgvins gengur þannig út að ráðherra afsali sér í raun skipunarvaldinu með formlegum og bindandi hætti til hagsmunaaðila út í bæ.

Ráðherra ber pólitíska ábyrgð á skipunum sínum og þá ábyrgð getur hann ekki lagt á herðar einhverra umsagnaraðila. Eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti réttilega á í dag, þá eru ráðuneytin ekki sjálfvirkir stimpilpúðar fyrir hagsmunasamtök.

Það er hins vegar athyglisvert að þingmönnum Samfylkingarinnar virtist ekki mjög umhugað um halda sig við venjur þegar forseti Íslands gekk á skjön við ríka stjórnskipunarhefð og tók sér neitunarvald í fjölmiðlamálinu svokallaða.

Ólíkt forsetanum er menntamálaráðherra að sinna því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum; að bera ábyrgð á stjórnarathöfnum sínum.


Misskiptingin í Draumaríkinu

Samkvæmt skýrslu Hagstofunnar um tekjuskiptingu er ójöfnuður meiri í nánast öllum Evrópuríkjum en raunin er hér á landi. Sá flokkur sem mest hefur gert úr meintum ójöfnuði á Íslandi er jafnframt sá flokkur sem harðast hefur barist fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Það hefur svo sem legið fyrir að Samfylkingin vill fara með Ísland inn í bandalag þar sem hagvöxtur er mun minni en hér á landi, kaupmáttur miklu lægri og atvinnuleysi jafnframt meira.

Og nú eru enn ein „rökin“ komin fram; ójöfnuður í Evrópusambandinu er mun meiri en hér á landi.

[Má til með að benda á leiðara Deiglunnar í dag um klámstefnuna miklu...] 


Holur hljómur

Það er holur hljómur í málflutningi varaformanns Samfylkingarinnar þegar hann segir að flokkur sinn fagni umræðu um jafnréttismál. Ágústi Ólafi og félögum væri hollara að beina athyglinni að öðrum hlutum, því staða kvenna innan Samfylkingarinnar er ekkert til guma af.

Á þetta bendir Eygló Harðardóttir í ágætum pistli á bloggi sínu í dag og segir þar m.a.: 

"Miðað við þær forsendur að þeir sem leiða lista eigi að verða ráðherrar þá er bara eitt ráðherraefni hjá Samfylkingunni, þ.a.s. Ingibjörg Sólrún sjálf.  Að öðru leyti eru listar Samfylkingarinnar leiddir af körlum."

Árni Helgason fjallar líka um þetta á blogginu sínu og vitnar í nýlegt viðtal við Guðrúnu Ögmundsdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu, þar sem hún segir að karlkynsframbjóðendur hafi unnið sameiginlega gegn henni í prófkjöri Samfylkingarinnar í haust.

Þeim fer óðfluga fækkandi málunum sem Samfylkingin hefur fótfestu í. Hart er orðið í ári þegar femínistar flýja umvörpum þetta skilgetna afkvæmi Kvennalistans sáluga.


Ísland stenst prófið um jöfnuð

Nú þegar stóra kosningamál íslenskra jafnaðarmanna er gufað upp, þá eru spunameistararnir byrjaðir að draga í land. Það væri þó heiðarlegra hjá þeim að gera það af meiri myndarskap en Þorvaldur Gylfason gerir í grein sinni í Fréttablaðinu í dag.

Alþjóðlegar rannsóknir hafa nú fært okkur heim sanninn um að óvíða á byggðu bóli er jöfnuður meiri en hér á Íslandi. Eftir alla fyrirhöfnina og allt "plöggið" er kosningabomba Stefáns Ólafssonar og Þorvaldar Gylfasonar, umboðsmanna jafnaðarstefnunnar, að engu orðin.

Deiglan gerir þessu ágætlega skil í dag í pistli eftir Árna Helgason, þar sem segir m.a.

"Ísland stenst samkvæmt þessari rannsókn prófið um jöfnuð í þjóðfélaginu. Það hafa vissulega orðið breytingar í þá veru að hér hafa ýmsir orðið ríkari og hafa hærri tekjur en áður. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir sem minnst hafa milli handanna hafa einnig bætt sína stöðu verulega."

Þetta er auðvitað það sem mestu skiptir. Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað ekki að kappsfullir fylgismenn jafnaðarstefnunnar hafi hallað réttu máli og málað skrattann á vegginn á grundvelli rangra útreikninga.

Aðalatriðið er að tekjulægstu hópar samfélagsins hafa það hvergi betra en á Íslandi dag, ef frá er hugsanlega talið eitt Evrópuríki. Þessu ættu íslenskir jafnaðarmenn að fagna en ekki að bölsótast út þessa ánægjulegu staðreynd og reyna að gera lítið úr henni.

Það verður forvitnilegt að sjá hvaða mál verður næst gert að stóra kosningamáli íslenskra jafnaðarmanna þegar þetta mikla hitamál hefur nú kólnað mjög snögglega.


Ímyndarstríð Íbúðalánasjóðs

"Ætti að leggja Íbúðalánasjóð niður og nota þá fjármuni sem sparast að bæta kjör á niðurgreiddum íbúðalánum ríkisins sem veitt yrðu í gegnum almenna bankakerfið?"

Íbúðalánasjóður er alveg stórmerkileg stofnun. Sjóðurinn er í raun afgreiðslustofnun fyrir niðurgreidd, ríkistryggð lán, en eins og svo margar ríkisstofnanir, þá hefur hún öðlast sjálfstæða tilveru.

Reyndar hefur það gerst með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, því fáar - ef nokkur - ríkisstofnun virðist verja jafn miklum fjármunum og mannafla og Íbúðalánasjóður í að réttlæta eigin tilveru.  Jafnvel sjálft Ríkisútvarpið, þar sem starfsmenn hafa löngum talið sig handhafa æðri sannleika, kemst ekki með tærnar þar sem Íbúðalánasjóður hefur hælana.

Almannatengsladeild sjóðsins hefur til að mynda staðið fyrir fjölmörgum "viðhorfskönnunum" meðal almennings þar sem settar eru fram leiðandi og oft á tíðum villandi spurningar í því augnamiði að réttlæta tilveru sjóðsins.

Niðurstöðunum er síðan hampað í fjölmiðlum sem oftar en ekki gleypa við því gagnrýnislaust að sjóðurinn sjálfur stendur að baki könnunum. Myndu fjölmiðlar einhvern tímann gleypa við könnun á vegum Framsóknarflokksins, svo dæmi sé tekið af algjöru handahófi, þar sem flokkurinn hefði látið kannað "viðhorf almennings" til einhverja stefnumála sinna með spurningum sem væru hannaðar af ímyndarsérfræðingum flokksins? Ég hugsa ekki.

Hvers vegna greina fjölmiðlar þá gagnrýnislaust frá niðurstöðum kannana sem Íbúðalánasjóður lætur gera, þar sem fólk er spurt spurninga á borð við þá, hvort það vilji meiri niðurgreidd, ríkistryggð lán? Hver myndi slá hendinni á móti niðurgreiddu, ríkistryggðu láni? Auðvitað er yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem svara reiðubúinn til að taka slíkum gylliboðum, algerlega burtséð frá því hvort einhver þörf er á því fyrir viðkomandi.

Þessar niðurstöður eru síðan notaðar til að réttlæta tilveru sjóðsins.

Mætti ég stinga upp á spurningu í næsta spurningavagn Íbúðalánasjóðs:

"Ætti að leggja Íbúðalánasjóð niður og nota þá fjármuni sem sparast til að bæta kjör á niðurgreiddum íbúðalánum ríkisins sem veitt yrðu í gegnum almenna bankakerfið?"


Þess vegna er fulltrúalýðræði...

Það var ágætur fréttapunktur á baksíðu Markaðarins liðinni viku, þar sem sagði að stór hluti ungmenna, miðað við rannsókn sem gerð hafði verið, teldi að milljarður væri 100 milljónir. Þetta styrkir í það minnsta ekki málstað þeirra sem vilja hverfa frá fulltrúalýðræðinu.

Annars er það helst að ungir framsóknarmenn í Skagafirði hafna áframhaldandi samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn að loknum kosningum í vor. Þetta er auðvitað reiðarslag.


Tilvist Framsóknarflokksins í hættu

Ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birtist í dag er tilvist Framsóknarflokksins í alvarlegri hættu. Flokkurinn mælist með 3,9% fylgi og ég man ekki eftir að hafa séð slíkar fylgistölur áður hjá Framsókn.

Niðursveiflan hjá Framsókn skilar sér til vinstri flokkanna tveggja sem samkvæmt könnuninni gætu myndað ríkisstjórn með 33 þingmenn samtals á bak við sig. Það er auðvitað einnig mikil tíðindi.

Svo virðist sem mikið flökt sé á fylgi flokka nú um stundir og er fylgi Samfylkingarinnar þannig að sveiflast úr 18% upp í 28% milli kannana sem framkvæmdar eru með viku millibili. Væntanlega hefur umrót í framboðsmálum þarna einhver áhrif, og einnig er á það að líta að í könnunum Blaðsins og Fréttablaðsins er svarhlutfallið mjög lágt. Vissulega ber að varast að lesa of mikið út úr slíkum könnunum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur samkvæmt könnun Fréttablaðsins tæplega 37% fylgi sem er svipað og hann hefur verið með í undanförnum Gallup könnunum en mun minna en nýleg könnun Blaðsins benti til. Ætla verður að kannanir Gallup og Fréttablaðsins gefi raunhæfari mynd af fylgi Sjálfstæðisflokksins.

En hvað framsóknarmenn varðar, þá hljóta vísbendingar þær sem lesa má út úr svona fylgiskönnunum að reyna mjög á þolrifin. Framsóknarflokkurinn hefur hingað til staðist að mestu þær freistingar sem smáflokkar standa oft frammi fyrir - að elta uppi einhver popúlísk mál - en nú fer að reyna verulega á flokkinn. Líklegt er þó að botninum sé náð og úr þessu muni Framsókn smám saman vinna til baka fylgi sitt, væntanlega frá vinstri flokkunum tveimur.


Gegn betri vitund

Vinur minn og kunningi, Einar Mar Þórðarson, gerir orð forsætisráðherra um launamun kynjanna í ræðu á Viðskiptaþingi að umtalsefni á blogginu sínu. Einar, sem er kennari í félagsvísindadeild Háskóla Íslands, tengir þá umræðu við hugmyndir um leiðir til að einfalda lagaumhverfi fyrirtækja og gera skattaumhverfi þeirra hér á landi samkeppnishæft.

Segir Einar meðal annars af þessu tilefni:

„Kynbundin launamunur er svartur blettur á íslensku viðskiptalífi og samfélaginu öllu og því ættu raunhæfar lausnir til að útrýma honum að vera forsætisráðherra ofar í huga en hvort fyrirtæki græði milljón til eða frá.“

Einar Mar er glöggur maður og átta sig auðvitað á því að lægri skattar á fyrirtæki og einfaldari löggjöf er ekki spurning um hvort fyrirtæki græði milljón til eða frá. Fyrst og fremst er þetta spurning um hvort auðsköpun þessara fyrirtækja fari fram hér á landi eða annars staðar. Grundvöllur velferðar allra samfélagshópa á Íslandi er undir því kominn að hér sé til staðar nægilegt fjármagn. Og fyrir þá sem vilja að ríkisvaldið hafi hlutverki að gegna í þeim efnum er rétt að benda á orð forsætisráðherra úr áðurnefndri ræðu:

„Það er sem sumir fáist ekki til að skilja að 10% af miklu er mun meira en 18% af engu.“

Það er Einari Mar ekki samboðið að setja hlutina fram með þeim hætti sem hann gerir. Hann ætti fremur að hugsa um að byggja upp orðspor sitt sem fræðimanns en að taka þátt í einhverjum spunadansi. Hvatnig ráðamanna til stjórnenda fyrirtækja um að greiða sömu laun fyrir sambærilega vinnu og huga að jafnrétti í þeim efnum er síður en svo í mótsögn við að haga regluverki hér á landi með þeim hætti að hér verði áframhaldandi uppgangur og auðsköpun til hagsbóta fyrir allra þjóðfélagshópa.

Of margir íslenskir fræðimenn á sviði félagsvísinda eru svo að segja ómarktækir  vegna stjórnmálaskoðanna sinna og því hvernig þær lita framgöngu þeirra. Það væri synd að sjá Einar Mar bætast í þann hóp.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband