Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Æviskeið feðgina spannar tæpar tvær aldir

Í dag var jarðsungin í Reykjavík María Tryggvadóttir en hún lést 28. apríl síðastliðinn á 90. aldursári. Eins og lesa má um í minningu um Maríu í Morgunblaðinu var hún dóttir Helgu Jónasdóttur, kennara, og Tryggva Gunnarssonar, bankastjóra.

Tryggvi Gunnarsson, faðir Maríu, var bankastjóri, þjóðkunnur maður og einn af mestu áhrifamönnum í þjóðmálum hér á landi á 19. öldinni. Tryggvi var fæddur árið 1835 og andaðist skömmu áður en María fæddist þann 17. nóvember 1917.

Það er merkileg staðreynd að æviskeið þeirra feðgina, Tryggva og Maríu, spannar tæplega tvær aldir, eða frá 18. október 1835 til 27. apríl 2007, samtals 172 ár. 


Góður leiðari hjá Þorsteini

Þorsteinn Pálsson skrifar í dag ágætan leiðara í Fréttablaðið þar sem hann tekur fyrir hlutverk forseta við stjórnarmyndun. Í leiðaranum segir meðal annars:

Engum vafa er því undirorpið að allt vald varðandi myndun og setu ríkisstjórnar er í höndum Alþingis. Enga ríkisstjórn er unnt að mynda og engin ríkisstjórn getur setið án stuðnings eða hlutleysis meirihluta Alþingis. Forsetinn er hluti af framkvæmdavaldinu og verður að lúta vilja Alþingis í þessu efni.

 Þær áhyggjur sem höfundar Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins lét í ljós á dögunum eru óþarfar, eins og ég hef bent á. Auðvitað má með réttu halda því fram að ekki sé ólíklegt að núveranda forseta, sem er fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, hugnaðist best að hér tæki við vinstri stjórn að loknum kosningum. En Þorsteinn svarar þessum vangaveltum í niðurlagi leiðara síns:

Loks kemur til skoðunar hvort forseti geti beitt áhrifum sínum, vegna tengsla við forystumenn í stjórnmálum, í þeim tilgangi að skapa samstöðu um að ríkisstjórn verði mynduð á einn veg fremur en annan. Ekkert kemur í veg fyrir það. Slík tengsl geta reyndar virkað á báða bóga. Ef forsetinn er á annað borð opinn fyrir því geta stjórnmálaforingjarnir líka notað hann í þessu skyni.

Beiting áhrifa felur hins vegar ekki í sér neitt beint stjórnskipulegt vald. Í hverjum flokki má finna áhrifamenn sem geta beitt sér með svipuðum hætti og í sama tilgangi gagnvart einstökum flokksformönnum. Vilji forsetinn blanda sér í þann hóp er það í sjálfu sér ekkert ólýðræðislegra af hálfu hans en annarra. Það getur hins vegar haft víðtækari áhrif á álit hans og stöðu.

Hver sem hugur forsetans er getur hann aldrei tekið sér vald eða gengið í aðra átt en meirihluti Alþingis er fús að sætta sig við. Þar er ekkert stjórnskipulegt tómarúm.


Fréttafölsun á fréttastofu Ríkisútvarpsins

Steingrímur Ólafsson greinir frá neyðarlegri uppákomu hjá Ríkisútvarpinu sem oftar en ekki gumar af vandaðri blaðamennsku:

Krísufundir hafa verið haldnir hjá fréttastofu Útvarps eftir frekar ófaglega fréttamennsku. Fréttastofan tók þannig viðtal sem tekið var við Geir H. Haarde forsætisráðherra á mánudagskvöld út af sölu á hlut í Hitaveitu Suðurnesja og notaði það viðtal til að nota sem “svar” forsætisráðherra við vitleysunni í Skúla Thoroddsen hjá Starfsgreinasambandinu um ímyndaða sölu á Landsvirkjun.

Ný frétt var s.s. búin til með því að skeyta gömlu viðtali aftan við eins og það væru viðbrögð.

Ófagmannlegt og voru haldnir neyðarfundir á fréttastofu RÚV. Óðinn Jónsson, fréttastjóri, var ekki á vakt þegar þetta átti sér stað og hefur samkvæmt því sem rætt er um innan RÚV beðið forsætisráðherra afsökunar á þessari fréttafölsun.

Ingimar Karl Helgason, sem “bjó” til þessa frétt er víst heldur niðurlútur.

Og á að vera það.

Því er reyndar við þetta að bæta að Morgunblaðið tók frétt Ingimars svotil óbreytta upp á sinn fréttavef, mbl.is. Það er aldrei gott að treysta öðrum í blindni.


Óþarfar áhyggjur

Að mínu mati eru áhyggjur leiðarahöfundar Morgunblaðsins og einstakra þingmanna af því að forseti Íslands muni að loknum kosningum beita sér fyrir því að hér verði mynduð vinstri stjórn óþarfar, þótt þær kunni að vissu leyti að vera skiljanlegar.

Þar ræður mestu að stjórnarmyndun er í raun á forræði formanna flokkanna eða þingflokka þeirra eftir atvikum. Hvort málefnaleg samstaða náist milli flokka um myndun ríkisstjórnar hefur ekkert með forseta Íslands að gera. Sé til staðar vilji til meirihlutasamstarfs mun afstaða forseta Íslands ekki ráða neinu þar um.

Atbeini forsetans að stjórnarmyndun öðlast fyrst raunverulega þýðingu þegar hinir kjörnu fulltrúar ná ekki saman, þegar flokkarnir finna ekki grundvöll fyrir meirihlutastjórn. Þá kann að koma til kasta forsetans um að finna slíkan grundvöll til að koma í veg fyrir stjórnarkreppu.

Þótt ekki sé hægt að fullyrða neitt, þá bendir fátt til þess að einhverjir þeirra flokka sem bjóða fram til Alþingis muni ekki ná að mynda ríkisstjórn. Það eru engar slíkar brotalínur í íslenskri pólitík sem valda því að einstakir flokkar eru óstjórntækir frá sjónarhóli annarra flokka.

Ég tel því að ofangreindar áhyggjur séu að svo stöddu með öllu óþarfar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband