Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Heggur sá er hlífa skyldi

Var það ekki Jón Baldvin Hannibalsson sem kvartaði undan því um árið að hafa verið stunginn rýtingi í bakið í pólitískum skilningi? Hvað má þá segja um atlögu Jóns að eftirmanni hans á formannsstóli íslenskra jafnaðarmanna?

Þótt því verði vart á móti mælt að Jón hafi nokkuð til síns máls, þá er framkoma hans gagnvart formanni Samfylkingarinnar afar ódrengileg, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eiginlega er maður gáttaður að horfa upp á fyrrverandi leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna, sem formaður Samfylkingarinnar hefur lagt traust sitt á, koma aftan að samherja sínum með þessum hætti.

Staðan á vinstri væng stjórnmálanna er að verða kunnugleg. Þar kólnar kaffibandalagið hratt og klofna flokkar sem ekki hafa enn verið stofnaðir. Hvítt afl hefur yfirtekið Frjálslynda flokkinn og Margrét Sverrisdóttir, sem ekki hefur enn verið kjörin í eitt eða neitt, er í framboði, þótt ekki sé ljóst fyrir hvern eða hverja eða á hvaða forsendum. Aldraðir bjóða fram klofið og Framtíðarlandið með fyrrverandi fréttamann og fyrrverandi sendiherra - því framtíðin er jú þeirra - undirbýr framboð og eina græningjaflokki Íslands er gefið langt nef.


Athyglisverð stjórnskipan í Bangladesh

Í pistli á Deiglunni í dag skrifar Snæbjörn Gunnsteinsson um ansi sérstaka stjórnskipan í Bangladesh. Snæbjörn er búsettur í Bangladesh og hafa pistlar hans á Deiglunni vakið verðskuldaða athygli.

Um hið sérstaka fyrirkomulag í Bangladesh skrifar Snæbjörn meðal annars:

"Samkvæmt stjórnarskrá Bangladesh er kjörtímabilið 5 ár. Að því loknu kveður stjórnarskráin um -- og þetta ákvæði er einsdæmi í heiminum -- að við taki hlutlaus millibilsstjórn skipuð "ábyrgum samfélagsleiðtogum", svo sem hæstaréttardómurum og prófessorum, sem skuli sjá um að halda kosningar innan þriggja mánaða."

Pistill Snæbjörns í heild.


Litli og stóri vinstriflokkurinn

samfylkinginlogoÖrvæntingin vex í herbúðum Samfylkingarinnar. Við slíkar kringumstæður verða ýmsar lausnir að töfralausnum. Nýjasta 'sándbætið' er þagnarbandalag um Evrópumál sem Sjálfstæðisflokkurinn mun standa fyrir og segist formaður Samfylkingarinnar ekki ætla að taka þátt í þessu ímyndaða bandalagi.

Margir bundu miklar vonir við Ingibjörgu Sólrúnu sem leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna. Henni hefur tekist á undraskömmum tíma að tala fylgi Samfylkingarinnar niður um tæplega helming frá kjörfylgi flokksins en það sem verra er fyrir Ingibjörgu og hennar fólk er að hún á mjög undir högg að sækja innan sinna eigin herbúða.

Tilraunir Ingibjargar Sólrúnar nú til að skapa sér sérstöðu eru því skiljanlegar. Úr því sem komið er á Samfylkingin þá von kannski eina að verða flokkur um eitt til tvö mál, þar sem henni hefur augljóslega mislukkast að verða sú fjöldahreyfing sem að var stefnt. Alþýðuflokkurinn sálugi hafði fátt fram að færa í aðdraganda andláts síns annað en stefnumið um inngöngu í Evrópusambandið. Samfylkingin líkist þessum forvera sínum nú æ meira með hverjum degi sem líður.

Kannski er það ekki svo slæmt. Við stöndum þá uppi með tiltölulega lítinn frjálslyndan jafnaðarmannaflokk og heldur stærri flokk vinstrimanna. Ekki óþekkt mynstur, enda var þetta staðan þegar Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið voru í sömu sporum á árum áður. Litli og stóri vinstriflokkurinn.

Það er lykilatriði fyrir Samfylkinguna, ef hún ætlar sér að stóra hluti í stjórnarsamstarfi eftir kosningar, að formaður flokksins nái að þétta að raðirnar og gera flokkinn að sameinaðri heild. Annars vegar er það líklegra til árangurs fyrir þau stefnumál sem Samfylkingin vill ná fram og hins vegar er líklegra að samstarf við slíkan flokk verði farsælla en samstarf við sundraðan flokk.

Ef sú stefna Samfylkingarinnar að binda sig við eitt mál verður til þess að gera flokkinn samheldnari og áreiðanlegri, þá hygg ég að um gæfuspor sé að ræða fyrir formann flokksins.


Ofríki að skandinavískri fyrirmynd

snaefellAð mínu mati er krafa nýstofnaðra samtaka landeiganda um breytingu á þjóðlendulögunum allrar athygli verð. Við setningu laganna árið 1998 var eindregið varað við því að ríkisvaldið væri að slá eign sinni á hálendið með þeim sem lögin gerðu ráð fyrir. Þau varnaðarorð komu þó ekki frá þeim vinstrimönnum sem nú sjá lögunum allt til foráttu og reyna að nýta sér óánægjuna í sókn eftir vindi.

Á stofnfundi áurnefndra samtaka sem haldinn var í gær var skorað á ríkisstjórn og Alþingi að beita sér fyrir því að lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 verði breytt þegar í stað á þann veg að land, sem samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi og/eða heimildarskjali, þar á meðal fyrirvaralausu eignarafsali frá ríkinu, tilheyrir tiltekinni jörð, jörðum, upprekstrarfélagi, fjallskiladeild, sveitarfélagi eða annars konar lögpersónu, skuli teljast eignarland. Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.

Í grein sem Jónas Þór Guðmundsson, lögfræðingur og þáverandi 1. varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, skriaði í Morgunblaðið þann 6. maí 1998, setti hann fram rökstudda og málefnalega gagnrýni á það frumvarp sem Alþingi samþykkti siðar sem lög um þjóðlendur. Sagði Jónas meðal annars í greininni:

"Hér á landi hefur því aldrei verið talin gilda sama regla og í Danmörku, um að "det som ingen mand ejer, det ejer kongen". Er það kannski ekki að furða, þegar haft er í huga að Íslendingar hafa lengst af verið fráhverfir íhlutunarsömu ríkisvaldi. Í þessu felst m.ö.o., að á Íslandi eru landsvæði, sem enginn á. Slík svæði eru ekki "sameign þjóðarinnar" í skilningi eignarréttar og hafa aldrei verið. Þau á einfaldlega enginn."

Jónas Þór lauk grein sinni með eftirfarandi orðum:

"Þvert á móti eru líklegustu áhrif frumvarpsins þau, ef að lögum verður, að ýta undir ofstjórnartilhneigingar þeirra sem með ríkisvald fara á hverjum tíma, sem skerða mundu almannarétt."

Því verður ekki á móti mælt að með setningu þjóðlendulaganna sló ríkisvaldið eign sinni á land sem sátt hafði verið um frá landnámi að tilheyrðu engum, væru almenningur. Það er auðvitað fráleitt að ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins skuli hafa staðið að þess háttar ríkisvæðingu og lögfest ákvæði þess efnis að land sem enginn gæti sanna eignarrétt sinn að, þ.e. afréttir og almenningar, skyldi teljast ríkiseign.

Hæpið sýnist að snúa lögunum að öllu leyti við, enda tæpur áratugur frá lagasetningunni. Það er hins vegar vel athugandi hvort ekki sé hægt að koma til móts við sjónarmið landeigenda með þeirri lagabreytingu sem þeir hafa nú lagt til eða með þvi að ríkið setji kröfur sínar fram með þeim hætti að landeigendum sé íþyngt sem minnst.


Hvað er 'herferð á alþjóðavettvangi'?

ruvÞann 19. janúar flutti Ríkisútvarpið landsmönnum þá váfrétt að bresk yfirvöld hyggðu á herferð á alþjóðavettvangi gegn hvalveiðum og verndarar 'herferðarinnar' væru þeir Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra, og sjónvarpsmaðurinn Richard Attenborough. Þess var jafnframt getið í fréttinni að hvalveiðar Íslendinga hefðu lengið verið Bretum þyrnir í auga og þegar atvinnuveiðar hófust sl. haust hefði íslenski sendiherrann verið kallaður á fund hjá Ben nokkrum Bradshaw, ráðherra, þar sem Íslendingar voru varaðir við afleiðingum gjörða sinna.

Þetta voru skilaboð Ríkisútvarpsins þann dag - alþjóðleg herferð, hvorki meira né minna. Hins vegar fór þessi herferð alveg fram hjá alþjóðlegum fjölmiðlum, jafnvel þótt hún væri alþjóðleg. Á gjörvöllum veraldarvefnum var nákvæmlega ekkert að finna um herferðina næstu daga eftir frétt RÚV. Engin yfirlýsing birtist heldur um herferðin á heimasíðu breska sjávarútvegsráðuneytisins sem hefur með vernd sjávardýra að gera. Ben þessi Bradshaw, sem sagður var sjávarútvegsráðherra, er raunar ráðherra nær-umhverfismála, dýra- og sjávarverndar.

Nú er komið á daginn að 'herferðin' sem Ríkisútvarpið boðaði landsmönnum var fundur sem halda á í Lundúnum þar sem Bretar munu freista þess að fá nokkur ríki sem andvíg munu vera hvalveiðum til að ganga í Alþjóða hvalveiðiráðið.

Getur verið að hagsmunum Íslendinga á erlendum mörkuðum vegna andstöðu við hvalveiðar stafi mest ógn af slíkum upphlaupum íslenskra fjölmiðla - í það minnsta virðist Ríkisútvarpið gera það sem í valdi þess stendur til að valda hugaræsingi vegna veiðanna.


Botnbarátta íslenskra stjórnmála

Samkvæmt skoðanakönnunum eru Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn í botnbaráttu íslenskra stjórnmála, þar sem þeir skiptast á að verma botnsætið í hverri könnuninni á fætur annarri.

framsoknlogoFrjálslyndir skutu keppinautum sínum ref fyrir rass með því að fanga ólundunarfylgi hjá þeim sem ekki þola að útlendingar skuli hafa sama ferða- og atvinnufrelsi hér á landi og Íslendingar njóta erlendis. Framsókn hefur ekki fallið í þann fúla pytt og með örfáum undantekningum hefur Framsóknarflokknum tekist að sneiða hjá popúlískum málflutningi sem hlýtur að vera mesta freisting allra smáflokka.

En þessir flokkar eiga það hins vegar sameiginlegt að afar undarlegar reglur gilda um kosningar innan þeirra. Í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi gátu allir sem skráðir voru í Framsóknarfélag í kjördæmi tekið þátt, óháð því hvort ættu rétt til að kjósa viðkomandi frambjóðendur í sjálfum kosningunum.

frjalslyndirlogoFrjálslyndir ganga þó skrefinu lengra í tvísýnu formannskjöri sem fram fer á morgun. Þar geta allir gengið inn af götunni og greitt atkvæði gegn því að greiða 2.000 krónur. Þó eru aldraðir og öryrkjar undanþegnir gjaldinu og geta því kosið "frítt". Erfitt er að segja til um það hvorri fylkingunni hentar þetta fyrirkomulag en maður skyldi þó ætla að það væri ekki sérstaklega í þágu þeirra sem telja sig til almennra og dyggra flokksmanna í Frjálslynda flokknum.

Ekki að undra að helsti trúnaðarmaður flokksins, Sveinn Aðalsteinsson, miðstjórnarmaður og kosningastjóri Frjálslyndra í Reykjavík, skyldi hafa ákveðið að taka pokann sinn og koma sér burt í tæka tíð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband